Sjálfstæður gjaldmiðill mikilvægur

Paul Krugman.
Paul Krugman.

Bandaríski hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman gerir skrif Þorvaldar Gylfasonar hagfræðiprófessors um efnahagserfiðleikana hér á landi í kjölfar bankahrunsins að umfjöllunarefni á bloggi sínu á vefsíðu bandaríska dagblaðsins New York Times. Þar gagnrýnir Krugman skrif Þorvaldar og einkum samanburðinn við erfiðleika Írlands.

Þannig hafi Þorvaldur einblínt á landsframleiðslu og bent á að Írar hafi náð sömu landsframleiðslu á mann og fyrir efnahagserfiðleikana aðeins ári síðar en Íslendingar. Fyrir vikið væri að mati Þorvaldar ekki rétt að sjálfstæður gjaldmiðill Íslands hafi bjargað Íslendingum frá sorglegum örlögum Íra vegna þess að þeir síðarnefndu væru með evru sem gjaldmiðil.

Krugman segir rétt að Írar hafi náð sömu landsframleiðslu á mann og fyrir efnahagserfiðleikana ári á eftir Íslendingum. Hins vegar væri það ekki eini þátturinn sem þyrfti að horfa til í slíkum samanburði. Ef horft væri til að mynda til atvinnustigsins kæmi Ísland miklu betur út en Írland. Þannig hafi atvinnuleysi að sama skapi verið miklu minna hér á landi en á Írlandi.

Krugman segir ennfremur að allir sem hann þekki og hafi fylgst með efnahag beggja landa séu þeirrar skoðunar að erfiðleikar almennings hafi verið mun meiri á Írlandi en Íslandi. „Já, og gleymum ekki að allir áttu von á því að erfiðleikar Íslands yrðu miklu verri í ljósi þess hversu mikið fjármálageirinn hafði vaxið. Framan af var samanburður við Ísland aðeins hugsaður sem svartur húmor á Írlandi. Ekki eitthvað sem fólk taldi að hefði einhverja þýðingu.“

Krugman lýkur bloggfærslunni á þessum orðum: „Ég skil svo sem þörfina fyrir það að koma fram með afsakanir fyrir evruna. En fyrirliggjandi gögn benda hins vegar sterklega til þess að það fylgi því mikilvægir kostir að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert