Óveður víða

Það er fátt um fólk á ferli í miðbæ Reykjavíkur.
Það er fátt um fólk á ferli í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Tekið er að blotna í snjónum á láglendi sunnan- og suðvestanlands og við það minnkar snjófjúk til muna. Ætlað er að veður lægi upp úr kl. 13 en nokkuð þétt logndrífa verður samt áfram víða suðvestalands fram á síðdegið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þar segir einnig að norðvestantil á landinu lægi mikið á milli kl. 14 og 16, en veður er versnandi norðaustan- og austalands, vaxandi vindur, skafrenningur. Austanlands mun setja niður talsverðan snjó frá því um miðjan dag og fram á nótt, einkum á Austfjörðum.

Færð og aðstæður:

Hálka og skafrenningur er á flestum leiðum í kringum Reykjavík. Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum og einnig á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu en þar er einnig snjókoma. Hálka og snjókoma er á Mosfellsheiði. Óveður og hálka er á Reykjanesbraut og hálkublettir og óveður á Grindarvíkurvegi.

Það er hálka eða snjóþekja á flestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi. Snjóþekja og stórhríð er undir Akrafjalli. Hálkublettir og óveður er á Kjalarnesi. Hálka og óveður er undir Eyjafjöllum og við Vík.

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði og snjóþekja og skafrenningur á Bröttubrekku. Ófært er á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum þó er ófært á Hálfdán, Mikladal og Kleifarheiði. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar, einnig er ófært á Bjarnarfjarðarhálsi og þaðan norður í Árneshrepp.

Á Norður- og Austurlandi er hálka eða snjóþekja allvíða og einnig skafrenningur á fjallvegum. Flughálka er á Dettifossvegi.  Þæfingsfærð er á Öxi og Breiðdalsheiði en snjóþekja eða hálkublettir og éljagangur eru með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert