Styrkja börn til íþróttaiðkunar

Valsarar hyggjast styðja vel við yngri kynslóðina.
Valsarar hyggjast styðja vel við yngri kynslóðina.

Knattspyrnufélagið Valur hefur sett á laggirnar styrktarsjóð sem hlotið hefur nafnið Friðrikssjóður í höfuðið á séra Friðriki Friðrikssyni, stofnanda Vals.

Í tilkynningu frá félaginu segir að hlutverk sjóðsins sé að tryggja að allir núverandi og framtíðariðkendur Vals geti staðið straum af þeim kostnaði sem fylgir því að stunda íþróttir í Val og tryggja að ekkert barn sem vilji stunda íþróttir verði meinað að gera slíkt sökum fjárskorts á heimili sínu.

„Því miður hefur ástandið verið þannig að einstaka foreldri eða forráðamaður iðkenda í Val hafa ekki haft tök á því að greiða æfingagjöld, hefur sá kostnaður yfirleitt verið afskrifaður af félaginu eða samið um aðrar greiðslur. Með stofnun sjóðsins er áætlað að koma í veg fyrir slíkt þar sem fólk getur sótt rafrænt um styrk í sjóðnum fyrir æfingagjöldum og kostnaði tengdum íþróttum í Val,“ segir í tilkynningunni.

Allar umsóknir eru trúnaðarmál sem aðeins stjórn Friðrikssjóðs hefur aðgang að. Þrír skipa stjórn sjóðsins, einn er tilnefndur af aðalstjórn Vals, annar af stjórn Barna- og unglingasviðs Vals og þriðji er starfandi framkvæmdastjóri félagsins.

Skipulagsskrá og úthlutunarreglur sjóðsins ásamt umsóknareyðublaði er hægt að nálgast á heimasíðu Vals undir hlekknum Friðrikssjóður. Stofnfé sjóðsins er sjálfsaflafé og búið er að tryggja fjármögnun sjóðsins í þrjú ár hið minnsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert