Fer yfir lög um hælisleitendur

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við ætlum að fara yfir það hvort það er eitthvað í kerfinu sem gerir það að verkum að fólk lætur ekki reyna á þessi réttindi sín,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjarnefndar Alþingis, vegna albanskra fjölskyldna sem fluttar voru af landi brott á dögunum í kjölfar þess að Útlendingastofnun synjaði þeim um hæli hér á landi. Aldrei kom til þess að sú ákvörðun væri kærð til úrskurðanefndar Útlendingamála.

Faðir albansks drengs með slímseigjusjúkdóm segir að lögmaður fjölskyldunnar hafi ráðlagt þeim að falla frá kæru til úrskurðarnefndarinnar og una ákvörðun Útlendingastofnunar með þeim rökum að litlar líkur væru á að fjölskyldan fengi hæli hér á landi. Unnur segir að þegar úrskurðarnefndin var sett á laggirnar í kjölfar breyttra laga hafi hugmyndin verið sú að hún væri notuð enda um að ræða réttindi fólks. Áður var það innanríkisráðherra sem úrskurðaði í slíkum málum en ráðherra kemur ekki lengur að ákvörðunum um veitingu hælis.

Fleiri atriði þurfi að skoða betur að sögn Unnar. Eins og til að mynda þegar um er að ræða veik börn. Hvernig hagsmunir barnsins séu metnir. Hvað sé skoðað í því sambandi. Síðan megi ekki gleyma því að unnið hafi verið nýtt frumvarp um málefni útlendinga sem þurfi að fá sem fyrst inn í þingið og afgreiða fyrir vorið. Frumvarpið hafi verið unnið af þverpólitískri þingmannanefnd og í samráði við alla aðila í kerfinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert