Píratar og Framsókn bæta við sig fylgi

Píratar mælast áfram stærsti flokkur landsins með rúmlega þriðjungs fylgi. …
Píratar mælast áfram stærsti flokkur landsins með rúmlega þriðjungs fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er með 22,9% og Framsókn með 12,9%. Ómar Óskarsson

Píratar eru áfram stærsti flokkur landsins miðað við nýja könnun sem MMR framkvæmdi á fylgi stjórnmálaflokka og stuðningi við ríkisstjórnina á tímabilinu 1. til 7. desember. Mældist fylgi Pírata 35,5% meðan Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 22,9% og Framsóknarflokkurinn með 12,9%.

Fylgi Pírata var í október 34,2% og í nóvember 35,3% og er því að hækka örlítið. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 21,7% í október og 23,7% í nóvember.

Fylgi Framsóknarflokksins jókst um rúmlega tvö prósentustig milli kannana, en í október hafði flokkurinn verið með 10,4% og í nóvember 10,8%. Fylgi ríkisstjórnarflokkanna er með þessum breytingum komið rétt yfir fylgi Pírata, eða með 35,8% á móti 35,5%.

Vinstri grænir og Samfylkingin mælast með 9,4% og hafa báðir flokkar misst fylgi síðustu tvo mánuði. Vinstri grænir voru með 11,8% í október og fóru niður í 9,9% í nóvember á meðan Samfylkingin var í 11,3% í október og fór í 10,5% í nóvember.

Fylgi Bjartrar framtíðar helst í stað milli kannana og er 4,6%, en í október var flokkurinn með 6,5%. Fylgi Dögunnar mældist 1,1% borið saman við 0,7% í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist undir 1%.

Heildarfjöldi svarenda í könnuninni var 967 einstaklingar, 18 ára og eldri. Vikmörk miðað við 1.000 svarendur geta verið allt að 3,1%. Það þýðir að raunverulegt fylgi getur verið á bilinu 3,1% hærra eða lægra en niðurstaða könnunarinnar gefur til kynna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert