Slagsmál, innbrot og ökumenn í vímu

Það var þröngt á þingi í fangaklefum á lögreglustöðinni á …
Það var þröngt á þingi í fangaklefum á lögreglustöðinni á Hverfisgötu í nótt. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Slagsmál, í annarlegu ástandi og lét ófriðlega, ökumenn undir áhrifum áfengis og fíkniefna á ferðinni og innbrot. Þetta er meðal þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að fást við í gærkvöldi og nótt.

Það var um ellefu leytið í gærkvöldi þegar starfsfólk bráðamóttöku óskaði eftir aðstoð lögreglunnar vegna manns sem var í mjög annarlegu ástandi og lét ófriðlega. Lögregla fjarlægði manninn og gistir hann fangageymslu þangað til af honum rennur víman.

Tilkynning barst til lögreglu um eitt leytið í nótt um slagsmál fyrir utan skemmtistað í miðborginni. Lögreglan handtók einn á staðnum en hann neitaði að fara að fyrirmælum lögreglu og gaf hvorki upp kennitölu né dvalarstað. Hann verður yfirheyrður síðar í dag en gistir fangaklefa þangað til.

Um klukkutíma síðar var maður handtekinn fyrir að kasta af sér vatni á Stjórnarráðsbygginguna. Hann var látinn laus að lokinni skýrslu.

Lögreglan handtók mann sem var gripinn glóðvolgur við innbrot í verslun í austurhluta borgarinnar um eitt í nótt. Það voru öryggisverðir sem urðu varir við kauða en sá gistir fangaklefa og verður yfirheyrður síðar í dag.

Um þrjú barst síðan tilkynning um innbrot í verslun í Árbæ og handtók lögreglan tvo á vettvangi og gista þeir fangaklefa en verða yfirheyrðir síðar í dag.

Tveir ökumenn voru síðan stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum áfengis og einn vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Sýni voru tekin úr þeim öllum en sleppt að því loknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert