Hótaði að mæta með skotvopn

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

Um klukkan hálfeitt í dag var tilkynnt um mjög alvarlegar hótanir gagnvart starfsfólki Héraðsdóms Reykjavíkur. Hafði þá maður hringt í dómshúsið og haft í hótunum við starfsfólk, ausið yfir það svívirðingum og hótað að mæta þangað vopnaður skotvopni.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Er maðurinn þar sagður hafa verið ósáttur með afgreiðslu sinna mála en viðkomandi er þekktur og hefur áður komið við sögu lögreglu.

Lögreglan brást við með því að setja upp vakt við héraðsdóm en einnig voru lögreglumenn sendir að dvalarstað viðkomandi. Var hann nokkru seinna handtekinn án mótþróa og færður í fangageymslur.

Skýrsla verður tekin af manninum en frekari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert