Ferðamenn flykkjast til landsins

Norðurljósaferðir eru afar vinsælar meðal ferðamanna í ár.
Norðurljósaferðir eru afar vinsælar meðal ferðamanna í ár. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það má segja að á undanförnum árum hafi Ísland yfir hátíðirn­ar orðið ný markaðsvara fyr­ir er­lenda ferðamenn,“ seg­ir Skapti Örn Ólafs­son, upp­lýs­inga­full­trúi Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar. Um ell­efu þúsund er­lend­ir ferðamenn dvelja á Íslandi yfir hátíðirn­ar í ár og má gera ráð fyrir um 70% þeirra munu dvelja á suðvest­ur­horn­inu.

Hann seg­ir ferðamenn­ina fyrst og fremst koma til að skoða og upplifa ís­lenska nátt­úru. „Í ár hefur veðrið verið með ágætum og landið okkar skartað sínu fegursta. Þá má geta þess að höfuðborgin okkar Reykjavík er eina höfuðborgin í Evrópu sem er hvít í ár og það er ákveðinn bónus fyrir gestina okkar,“ segir Skapti Örn og bætir við að þúsund­ir er­lendra ferðamanna fari í hefðbundn­ar dags­ferðir á degi hverj­um og í ár hafa norður­ljósa­ferðirn­ar einnig verið vin­sæl­ar. 

Skapti Örn seg­ir opn­un­ar­tíma versl­ana og þjón­ustuaðila yfir jól og ára­mót hafa breyst mikið und­an­far­in ár. „Ísland fyr­ir tíu árum og Ísland í dag er tvennt ólíkt, nú eru sí­fellt fleiri staðir opn­ir yfir hátíðirn­ar. Ef Ísland ætl­ar að vera áfangastaður yfir þenn­an tíma þá fylg­ir því að vera með opið yfir hátíðirn­ar.“

Sam­kvæmt spá Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar er gert ráð fyr­ir að um 1,3 millj­ón­ir er­lendra ferðamanna muni hafa lagt komu sína til Ísland þegar árið 2015 verður gert upp. Skapti Örn seg­ir að um og yfir 20% vöxt­ur hafi orðið í ferðaþjón­ust­unni á ári hverju und­an­far­in ár. „Það sem við vilj­um sjá er auk­in dreif­ing ferðamanna yfir allt landið, ekki bara á sumr­in held­ur einnig yfir vetrartímann og ekki síst yfir jól og ára­mót.“

Fylgjast með sprengjuglöðum Íslendingum 

Davíð Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, tekur í sama streng og Skapti Örn og segir að töluverð aukning hafi orðið af ferðmönnum síðustu ár. „Það er ekki langt síðan við lokuðum hótelum yfir jólin, það hefur breyst mikið núna.“ Hann segir að í ár sé aðeins eitt af hótelum Íslandshótela lokað yfir hátíðirnar en áður fyrr hafi þau verið allt að þrjú.

Íslandshótel reka fimmtán hótel á Íslandi, Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum og Best Western Hótel Reykjavík, Hótel Reykjadalur auk Fosshótelanna sem staðsett eru hringinn í kringum landið.

Hann segir öll hótelin fullbókuð yfir áramótin en það hafi þau einnig verið í fyrra. „Munurinn er þó sá að nú erum við búið að fjölga hótelum þannig að það eru fleiri herbergi sem búið er að fylla.“ Hann segir erlenda ferðamenn flykkjast til landsins til að fylgjast með sprengjuglöðum Íslendingum halda áramótin hátíðleg auk þess sem áramótabrennur séu vinsælar.

Davíð segir að þó svo að verið sé að opna mörg ný hótel í miðbænum virðist það ekki hafa áhrif né koma niður á nýtingu annarra hótela.

Gintare Siniauskaite, starfsmaður CenterHotels, segir sömu söguna og þeir Skapti Örn og Davíð. Hún segir öll hótel CenterHotels fullbókuð yfir hátíðirnar eins og áður. Munurinn sé aftur á móti sá að nú séu fleiri hótel í notkun en áður. „Það er brjálað að gera og öll keðjan fullbókuð.“

Skapti Örn Ólafs­son, upp­lýs­inga­full­trúi Samtaka ferðaþjón­ust­unn­ar.
Skapti Örn Ólafs­son, upp­lýs­inga­full­trúi Samtaka ferðaþjón­ust­unn­ar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert