Búast má við fárviðri

Svona er vindaspáin kl. 8 í fyrramálið.
Svona er vindaspáin kl. 8 í fyrramálið. Skjáskot/Veðurstofan

Mjög djúp lægð nálgast landið í kvöld úr suðri með ört vaxandi austan átt og fer hún allhratt norður yfir land í nótt. Aðal vindstrengur þessarar lægðar er austan við lægðarmiðjuna og gera nýjustu spár ráð fyrir að vindstrengurinn nái inn á landið austanvert með sunnan roki og sums staðar fárviðri við austurströndina í nótt.

Í viðvörun á vef Veðurstofunnar segir að mikilvægt sé að fylgjast með veðurspám því ekki þarf braut lægðarinnar að breytast mikið til þess að miklar breytingar verði á veðurspám. Í kvöld og nótt má einnig búast við talsverðri úrkomu suðaustanlands og á Austfjörðum. Upp úr hádegi á morgun verður lægðin komin norður fyrir land og má þá búast við suðvestan átt 15-25 m/s með skúrum eða éljum um landið sunnan- og vestanvert, en hvassast verður þá á annesjum norðantil. Annað kvöld dregur síðan ört úr vindi.

Veðurspá í dag gerir annars ráð fyrir sunnan og síðar suðaustan 8-15 metrum á sekúndu og dálitlum éljum, þurru að mestu um landið norðaustanvert, en slyddu eða rigningu með köflum sunnantil.

Veðurvefur mbl.is

Vaxandi vindur verður þegar líður á daginn, austan og norðaustan 18-25 m/s seint í kvöld, hvassast suðaustan- og austantil og talsverð rigning þar, en úrkomuminna í öðrum landshlutum. Suðlæg átt 20-30 m/s verður austantil á landinu seint í nótt, en annars mun hægari breytileg átt.

Suðvestan 15-25 m/s verður upp úr hádegi á morgun, hvassast norðantil á landinu, en hægari annað kvöld. Skúrir eða él, en þurrt að mestu norðaustantil. Hiti um eða yfir frostmarki.

Fjarðarheiði enn ófær

Fjarðarheiði er ófær vegna vatnaskemmda og sömuleiðis Vattarnesvegur í Reyðarfirði, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Það hefur snjóað um sunnanvert landið og þar er snjóþekja eða hálka á vegum. Til að mynda er hálka á Hellisheiði og í Þrengslum, og eins er hálka á Reykjanesbraut og snjóþekja á Suðurnesjum. Hálkublettir eru á Höfuðborgarsvæðinu en annars hálka eða snjóþekja á vegum við Faxaflóa.

Annars staðar á landinu er færð ekki að fullu könnuð en nánari fréttir eiga að berast fyrir klukkan hálf-átta.

Í morgun var hríð í efri byggðum höfuðborgarinnar. Hálka og krapi er á sumum götum.

Í kvöld og nótt má einnig búast við talsverðri úrkomu …
Í kvöld og nótt má einnig búast við talsverðri úrkomu suðaustanlands og á Austfjörðum. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert