Amman tók á móti fyrsta Skagabarninu

Foreldrarnir, Arnar Þór Haraldsson og Anna Carolina Wagner, glaðir með …
Foreldrarnir, Arnar Þór Haraldsson og Anna Carolina Wagner, glaðir með nýfædda barnið.

„Það kom á nýársdag klukkan 17:45. Það er skemmtilegt að segja frá því að ég tók á móti því og er amma barnsins. Þetta var mjög skemmtilegt. Þau voru skráð 1. janúar og það stóðst,“ segir Ásthildur Gestsdóttir, ljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, spurð hvenær fyrsta barn ársins á Akranesi hefði fæðst.

Drengurinn sem fæddist á nýársdag og var jafnframt fyrsta barn ársins á Akranesi vó 3.325 grömm og var 51 sm langur. Hann er fyrsta barn þeirra Arnars Þórs Haraldssonar og Önnu Carolínu Wagner. Þau eru búsett í Reykjavík en komu á Akranes til að fæða barnið undir eftirliti ömmu.

Ásthildur segir það vera forréttindi að fá að taka á móti barnabarni. Þetta er annað barnabarnið sem hún tekur á móti en það þriðja er á leiðinni. „Ég er svo að bíða eftir öðru en dóttir mín er skráð í dag, 4. janúar,“ segir hún og hlær.

Mikið að gera um jólin

Á nýliðnu ári fæddust 259 börn á Akranesi, 127 drengir og 132 stúlkur. Það eru 10 færri börn en árið áður en þá fæddust 269 börn. Af þessum fæðingum fóru 55 í keisaraskurð. 33 þeirra voru skipulagðir.

„Það var mikið að gera um jólin. Það fæddust níu börn frá 25. desember til 30. og þar af fjögur á jóladag sem er óvenju mikið hjá okkur,“ segir Ásthildur og bætir við að þónokkur börn séu væntanleg í janúar. Þá verður því nóg að gera.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert