„Rétt að tala um tólfta manninn“

Geir Þorsteinsson formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson formaður KSÍ. RAX / Ragnar Axelsson

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segist vera í skýjunum með þann mikla fjölda sem sóttu um miða á EM í knattspyrnu í Frakklandi næsta sumar, en 26.985 Íslendingar sóttu um.

„Ég er gríðarlega ánægður fyrir hönd liðsins. Þeir munu fá góðan stuðning á völlunum úti og það skiptir máli,“ segir Geir í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: 8,15% Íslendinga sóttu um miða á EM

„Hvernig ætlið þið að draga allt þetta fólk til Frakklands?“

Eins og mbl.is hefur greint frá fær Ísland á bilinu 7-15 þúsund miða á hvern leik. Miðað við þann fjölda sem sótti um segir Geir að gera megi ráð fyrir að kvótinn verði næstum því eða alveg fylltur á fyrsta leiknum gegn Portúgal í Saint-Etienne.

Aftur á móti muni væntanlega allir komast að á leikina í Marseille og París, en þar voru 12 og 15 þúsund miðar fyrir Íslendinga í boði. Geir segir að á morgun muni KSÍ fá nánari sundurliðun varðandi umsóknir á hvern leik og þá skýrist mál enn frekar.

Geir rifjar upp að þegar Ísland var farið að gera sig líklegt til að komast á EM á síðasta ári hafi yfirmaður UEFA, Michel Platini, spurt hann hvernig Ísland ætlaði að fylla vellina í Frakklandi:

„Hvernig ætlið þið að draga allt þetta fólk til Frakklands?“ spurði Platini og svaraði Geir honum að hafa engar áhyggjur af því. Sannaðist það í dag þegar í ljós kom að 8,15% landsmanna sóttu um miða á leikina þrjá.

Geir Þorsteinsson og Michal Platini á góðri stundnu.
Geir Þorsteinsson og Michal Platini á góðri stundnu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Mun örugglega hafa áhrif á íslenskt atvinnulíf

Geir segir að hann hafi verið að vonast eftir því að um fjögur þúsund miðar færu á hvern leik, en ljóst sé að þetta sé langt umfram það. Segir hann óvíst að svona margir Íslendingar hafi nokkru sinni verið samankomnir á sama stað erlendis áður.

„Það er rétt að tala um 12. manninn,“ segir Geir um þennan mikla stuðning og bætir við að þegar svona mikill fjöldi Íslendinga verði samankominn á einum stað muni heyrast vel í fólki og skila sér til leikmannanna inn á vellinum.

Að lokum segir Geir í gamansömum tón að þetta muni örugglega hafa talsverð áhrif á íslenskt atvinnulíf í júní. „Fólk mun taka sumarfríið snemma,“ segir hann, en búast má við því að eitthvað hægist á starfsemi hér á landi ef tæplega 10% þjóðarinnar skellir sér í vikutíma til Frakklands í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert