Seinni fjögur liðin komin í sjónvarpið

Úr Útvarpshúsinu í kvöld.
Úr Útvarpshúsinu í kvöld. Mynd/RÚV

Átta lið eru komin áfram í sjónvarpskeppni Gettu betur eftir viðureignir kvöldsins. Dregið verður í viðureignirnar annað kvöld í Kastljósi og kemur þá ljós hvaða lið mætast í sjónvarpi á næstu vikum. Það eru lið Menntaskólans á Akureyri, Fjölbrautaskólans í Garðabæ, Menntaskólans við Sund og Menntaskólans í Reykjavík sem fóru áfram eftir viðureignir kvöldsins.

Úrslit í keppnum dagsins lyktuðu þannig að lið Menntaskólans á Akureyri sigraði lið Verzlunarskólans með 33 stigum gegn 21.  Lið Fjölbrautaskólans í Garðabæ hafði betur gegn liði Menntaskólans á Laugarvatni hlaut 22 stig gegn 12 stigum ML. Menntaskólinn við Sund sló Framhaldsskólann í Austur Skaftafellssýslu út eftir æsispennandi endasprett þeirra síðarnefndu sem dugði þeim ekki til en lið MS sigraði með 4 stiga mun, 23 - 19.

Síðasta viðureign kvöldsins og jafnframt annarrar umferðar var á milli Menntaskólans í Reykjavík og Borgarholtsskóla. Mikil spenna ríkti í Útvarpshúsinu því greinilegt var að bæði liðin ætluðu sér mikið. Eitt stig skildi liðin að eftir hraðaspurningarnar MR í vil en Borgarholtsskólinn tók forystuna í fyrstu bjölluspurningunni, staðan var þá 23 - 22. Menntaskólinn í Reykjavík sigldi þó fljótlega fram úr og sigraði með 9 stiga mun 35 - 26.

Sigurlið dagsins bættust í hóp fjögurra sigurvegara frá því á mánudagskvöld og eru komin áfram í átta liða úrslit keppninnar. Liðin sem keppa munu í sjónvarpi eru lið Menntaskólans við Hamrahlíð, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Menntaskólans á Ísafirði, Kvennaskólans, Menntaskólans á Akureyri, Fjölbrautaskólans í Garðabæ, Menntaskólans við Sund og Menntaskólans í Reykjavík. 

Dregið verður í viðureignir í sjónvarpi í Kastljósinu annað kvöld og kemur þá í ljós hvaða lið mætast í 8 liða úrslitum sem hefjast föstudaginn 5.febrúar nk. Spurningahöfundar eru þau Bryndís Björgvinsdóttir og Steinþór Helgi Arnsteinsson, þeim til aðstoðar er Björn Teitsson. Spyrill er  Björn Bragi Arnarson og umsjónarmaður og stjórnandi útsendingar er Elín Sveinsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert