Uppreist eða uppreisn æru?

Eiríkur segir lagamálið hér á landi frekar íhaldssamt.
Eiríkur segir lagamálið hér á landi frekar íhaldssamt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Síðan fregnir bárust af því í vikunni Atla Helgasyni hefði verið veitt uppreist æru hefur skapast mikil umræða um hvort rétt sé að segja að einhverjum hafi verið veitt uppreist æru eða uppreisn æru. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku, segir orðin tvö merkja það sama en fólk setji frekar spurningarmerki við uppreist æru þar sem það er vanara að heyra talað um uppreisn æru.

„Þetta eru tvö íslensk nafnorð, rétt mynduð af „reisa upp“. Þau koma bæði fram í fornmáli og virðast merkja það sama,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is.

Að sögn Eiríks koma þessi orð bæði fyrir í rituðu máli á 19. öld. „Þá er talað um tvær merkingar; annars vegar að fá uppreist/uppreisn æru, það að endurheimta mannorð sitt, og svo hin merkingin, að rísa upp gegn valdhöfum eða að gera uppreisn,“ segir Eiríkur. 

„Það virðist vera að uppreist sé algengara á 19. öld og fram yfir aldamótin 1900 en myndin með n-i, það er uppreisn, verður smátt og smátt algengari á 20. öldinni og er ein höfð núna, nema í þessu sambandi við uppreist/uppreisn æru.“

Lagamálið frekar íhaldssamt

Eiríkur segist ekki sjá neinn merkingarmun á orðunum og hvernig þau voru notuð á 19. öld. „Nú hef ég ekki skoðað hvenær þetta kemur inn í lagamál en ég ímynda mér að það hafi komið á 19. öldinni og það gæti verið ástæðan fyrir því að myndin með t-i er notuð þar sem að sú mynd var algengari á þeim tíma,“ segir Eiríkur. „Lagamálið er frekar íhaldssamt þannig að þessi mynd helst þar þó svo að hin myndin verði ofan á í venjulegu máli.“

Eiríkur segist ekki geta séð að það skipti máli hvort fólk kýs að segja uppreisn æru eða uppreist æru. „Orðin hljóta að vera fullkomlega jafngild en uppreisn æru er kannski frekar sú mynd sem fólk þekkir núorðið. En það er ekkert óeðlilegt að þegar er verið að vitna í ákvæði í lögum þá haldi menn sig við þá mynd sem er þar notuð.“

Fagnar allri umræðu um tungumálið

Eins og fyrr segir hefur myndast mikil umræða, bæði meðal fólks og á samfélagsmiðlum,  um rétta notkun orðanna. Eiríkur hefur tekið eftir því og tekið þátt í umræðum um málið á Facebook. „Mér finnst öll upplýst umræða um tungumálið vera fín og því er gott að fólk ræði þetta sín á milli. Það er ljóst að uppreist æru virkar undarlega á fólk því þessi mynd er eiginlega horfin úr málinu.“

Eiríkur segir bæði orðin rétt.
Eiríkur segir bæði orðin rétt. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert