Fá mismikinn stuðning eftir stöðu sinni

Talsverður munur er á þeirri þjónustu sem býðst kvótaflóttafólki og …
Talsverður munur er á þeirri þjónustu sem býðst kvótaflóttafólki og þeim sem fá stöðu flóttafólks og njóta verndar eftir að hafa áður verið skilgreindir sem hælisleitendur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Talsverður munur er á þeirri þjónustu sem býðst kvótaflóttafólki og þeim sem fá stöðu flóttafólks og njóta verndar eftir að hafa áður verið skilgreindir sem hælisleitendur. Áshildur Linnet, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum, segir brýnt að jafna aðstöðu þessara tveggja hópa, fólk í síðarnefnda hópnum geti af þessum sökum átt erfiðara með að samlagast samfélaginu en sá fyrrnefndi. Hún segir að nú sé verið að leita leiða til að jafna stöðuna.

„Það, hvernig við tökum á móti kvótaflóttafólki, er algerlega til fyrirmyndar. Þar er á ferðinni þétt og samstillt samstarf margra aðila,“ segir Áshildur. „En við þurfum að gera betur við hinn hópinn.“

Hún segir þjónustu við fólk sem nýtur verndar mismunandi eftir sveitarfélögum. Sums staðar bjóðist því íslenskukennsla, samfélagsfræðsla og sálfræðiþjónusta, annars staðar ekki.

Munurinn er margvíslegur, segir Áshildur um stöðu þessara tveggja hópa. „T.d. þurfa þeir sem fá stöðu flóttafólks, eftir að hafa verið hælisleitendur, sjálfir að útvega sér leiguíbúðir á almennum markað. Það er breitt bil á milli þess að vera í búsetu sem hælisleitandi og fara síðan út á almennan húsnæðismarkað í landi þar sem fólk þekkir jafnvel lítið sem ekkert til. Þetta bil þyrfti að brúa. Ef fólkið þarf síðan á félagslegri aðstoð að halda fær það hana hjá félagslega kerfinu, en margir þyrftu annars konar aðstoð vegna sinnar sérstöku stöðu.“

Vita ekki um eigin rétt

Annað atriði sem Áshildur segir að betur þyrfti að huga að er félagslegur stuðningur. Kvótaflóttafólk fær þrjár stuðningsfjölskyldur, en þeir sem fá hér stöðu flóttamanns fá ekki sama stuðning. Þá er líðan kvótaflóttamanna könnuð með reglulegum hætti, en það er ekki gert þegar um þá sem fá hér vernd er að ræða. Oft viti sá hópur ekki hvaða þjónustu hann á rétt á eða hvar hana sé að fá.

Hún segir að um sambærilega hópa sé að ræða, oft hafi fólkið áþekkan bakgrunn, hafi flúið heimkynni sín af sömu ástæðum og því séu þarfir þeirra svipaðar. Hún segir mikilvægt að þeir sem fái hér vernd fái meiri stuðning.

„Þverfagleg aðlögun í upphafi gerir það að verkum að sá mannauður sem býr í fólkinu nýtist betur og það verður fyrr virkir þáttakendur í samfélaginu. Hér á Íslandi er einna hæst atvinnuþátttaka innflytjenda. Það er ósk flestra flóttamanna að komast sem fyrst út á vinnumarkaðinn og sjá um sig sjálfir og það gerist fyrr ef fólk fær þann stuðning sem það þarf á að halda. Ef fólk fær hann ekki er hætt við að það festist í fari sem erfitt getur verið að komast upp úr. Það er talsverður aðstöðumunur á þessum tveimur hópum, hann þarf að laga og það þarf að gerast sem fyrst,“ segir Áshildur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert