Fer að snjóa aftur á morgun

mbl.is/Styrmir Kári

Á morgun fer veður kólnandi og úrkoman sunnan- og vestanlands færir sig yfir í snjóél. Búast má við dimmum éljum, einkum á fjallvegum, samfara allhvössum vindi. Akstursskilyrði geta orðið erfið þegar verst lætur. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Spáin næstu daga

Sunnan 13-20 m/s og rigning, en hægari og þurrt að kalla á N- og A-landi. Hiti 2 til 7 stig. Sunnan og suðvestan 10-18 á morgun og skúrir í fyrstu, en síðar él og kólnandi veður. Þurrt og bjart um landið NA-vert. Dregur lítillega úr vindi annað kvöld og hiti þá um eða rétt yfir frostmarki.

Á þriðjudag og miðvikudag:

Suðvestlæg átt 5-10 m/s og él eða snjókoma, en léttskýjað N- og A-til. Frost 0 til 8 stig, mest í innsveitum fyrir norðan.

Á fimmtudag:
Vestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og dálítil él á S- og V-landi, en norðlægari vindur nyrst með smáéljum. Bjart veður annars staðar á landinu. Frost 1 til 12 stig, mest í innsveitum.

Á föstudag:
Gengur í stífa norðaustanátt með éljum eða snjókomu nokkuð víða um land, síst þó á V-landi. Áfram kalt í veðri.

Á laugardag:
Norðanátt með éljum, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 3 til 10 stig.

Á sunnudag:
Útlit fyrir austlæga átt og úrkomulítið veður, en líkur á stöku éljum syðst. Kólnar í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert