Nógu óstöðugt fyrir eldingar

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Hilmar Bragi

Samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands verður komandi vika talsvert vetrarlegri en sú síðasta. Veður fer kólnandi í dag og úrkoma sunnan og vestan lands færir sig yfir í snjóél. Í dag má búast við dimmum éljum, einkum á fjallvegum samfara allhvössum vindi og geta akstursskilyrði orðið erfið þegar verst lætur. 

„Í gær voru þó nokkrar eldingar SV-lands og er loftið áfram nógu óstöðugt til að bjóða jafnvel upp á fleiri eldingar í dag og næstu daga,“ segir í hugleiðingunum. 

Samkvæmt spá morgunsins er gert ráð fyrir sunnan og suðvestan 10-18 m/s með morgninum og skúrum í fyrstu, en síðar éljum.

Þurrt og bjart verður um landið norðaustanvert. Draga mun úr vindi í dag og kólna með sunnan 8-15 m/s og hita um eða undir frostmarki síðdegis.

Á morgun er spáð hægari suðlægri átt á morgun og áfram éljum eða snjókomu sunnan og vestan til, annars léttskýjað. Frost verður 0 til 8 stig, mest í innsveitum fyrir norðan.

Flughált á Dettifossvegi

Vegir eru að mestu leyti auðir á Suður- og Suðausturlandi, aðeins hálkublettir á örfáum vegum.

Á Vesturlandi eru vegir víðast hvar greiðfærir, þó eru hálkublettir m.a. á Holtavörðuheiði en krapi og éljagangur á Bröttubrekku. Vegir á láglendi eru að mestu auðir á Vestfjörðum en sumstaðar er nokkur hálka eða krapi á fjallvegum.

Aðalleiðir á Norðurlandi eru mikið til greiðfærar en nokkur hálka er víða á útvegum, raunar er flughált á Dettifossvegi. Öllu meiri hálka er á Austurlandi, einkum á fjallvegum og inn til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert