Vegurinn um Vatnsfjarðarháls ófær

Snjóþekja og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni en hálka og skafrenningur á Sandskeiði. Á Suðurlandi er hálka eða snjóþekja á vegum.

Vestanlands er hálka, hálkublettir og sumstaðar snjóþekja. Hálka er á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði. Lokað er um Fróðárheiði.

Þæfingsfærð og skafrenningur er á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði en unnið er að hreinsun. Ófært er um Vatnsfjarðarháls en hægt er að fara fyrir Vatnsfjarðarnes. Þæfingur og skafrenningur er svo á Mikladal, Hálfdán og Gemlufallsheiði. Á vegi 60 eru umferð vísað um vetrarveg við Bæjardalsá og Geiradalsá.

Á Norðurlandi vestra er snjóþekja eða hálka en þó er þæfingsfærð á Siglufjarðarvegi. Á Norðausturlandi er hálka eða snjóþekja víðast hvar.

Austanlands er mestmegnis hálka og einnig með ströndinni suður úr en snjóþekja og éljagangur er þó í Stöðvarfirði og Kambaskriðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert