Einn lést í skotárás á Írlandi

Lögregla við Regency hótelið.
Lögregla við Regency hótelið. AFP

Vopnaðir menn, þar á meðal tveir dulbúnir sem lögregluþjónar og einn sem kona, brutu sér leið inn á hótel í Dublin í Írlandi á föstudag og hófu skothríð á áhorfendur og þátttakendur í vigtun vegna hnefaleikakeppni.

Lögregluyfirvöld segja einn hafa látist í árásinni sem átti sér stað klukkan 2:30 að staðartíma á Regency hótelinu í Dublin. Yfirvöld segjast telja að skotum hafi verið hleypt af bæði innan og utan salsins þar sem vigtunin fór fram en rannsókns standi enn yfir.

Skipuleggjendur keppninnar „Clash of the Clans“ hafa ákveðið að hætta við hana. Samkvæmt CNN segir lögreglan árásina ekki vera tengda hryðjuverkum en verið er að rannsaka hvort hún tengist gengjamenningu.

Bráðaliðar fundu þrjá særða menn á staðnum. Einn þeirra, maður á fertugsaldri, var þá þegar látinn.

Tveir árásarmannanna báru hjálma og klæddust búningum áþekkum þeim sem sérsveitarmenn ganga í. Þeir voru með sjálfvirk skotvopn. Tveir aðrir voru með skammbyssur. Einn var dulbúinn sem kona og bar rauðbrúna hárkollu en hinum var lýst sem riðvöxnum og bar hann ljósbrúna derhúfu.

Skömmu eftir árásina fann lögregla brunninn sendiferðabíl sem talinn er tengjast málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert