Mætti ljóslifandi í eigin jarðarför

Frá Bujumbura, höfuðborgi Burundi.
Frá Bujumbura, höfuðborgi Burundi. Wikipedia Commons/ SteveRwanda,

Þetta er þessi klassíska ástarsaga: Kona og maður hittast, þau fella hugi saman, giftast og eignast börn og svo gerir maðurinn mislukkaða tilraun til að láta myrða konuna og sviðsetur svo jarðarför sem hún mætir í, ljóslifandi.

Ekki svo klassískt? Nei, ekki aldeilis, en svona er saga Noelu Rukundo, átta barna móður frá Búrúndí sem kom til Ástralíu sem flóttamaður árið 2004, sama ár og framtíðareiginmaður hennar, Balenga Kalala fluttist til landsins.

Í janúar 2015 sneri Rukundo aftur til Burundi til að vera við jarðarför stjúpmóður sinnar. Hún lá á á hótelherberginu sínu, dottandi í hitanum, þegar Kalala hringdi í hana frá heimili þeirra í Ástralíu og stakk upp á því að hún fengi sér ferskt loft.

„Ég hugsaði ekkert út í það,“ sagði hún, í viðtali við BBC. „Ég hugsaði bara að honum stæði ekki á sama, að hann hefði áhyggjur af mér.“

En fáeinum andartökum eftir að hún steig út af hótelinu sá Rukundo mann vopnaðan byssu nálgast hana.

„Hann sagði bara „Ekki öskra. Ef þú byrjar að öskra mun ég skjóta þig. Þeir munu ná mér en þú? Þú verður þegar dauð.“

Hún var neydd inn í bíl og keyrð að byggingu annars staðar í höfuðborginni, Bujumbura, þar sem hún var bundin við stól. Mannræningjarnir spurðu hana hvað hún hefði unnið sér til saka, hvers vegna þeim hefði verið borgað fyrir að myrða hana.
Hún spurði á móti hver hefði greitt þeim fyrir það, hún ætti ekki í útistöðum við nokkurn mann.

„Þeir segja, „Eiginmaður þinn!“ Ég segi „Eiginmaður minn getur ekki myrt mig, þið eruð að ljúga! Og þá slá þeir mig utan undir. Eftir það segir leiðtoginn, „Þú er mjög heims, þú ert flón. Leyf mér að hringja í þann sem hefur borgað okkur fyrir að myrða þig.“

Hún heyrði leiðtogan segja manninum í símanum að þeir hefðu náð henni. Síminn var stilltur á hátalara svo Rukundo gæti heyrt svarið. Úr símanum barst rödd eiginmanns hennar. „Drepið hana“.

Afhentu sönnunargögn

 „Ég heyrði rödd hans. Ég heyrði í honum. Mér leið eins og höfuð mitt myndi springa,“ sagði Rukundo. „Svo lýstu þeir því fyrir honum hvar þeir ætluðu að henda líkinu.“

Þeir héldu henni í tvo daga en slepptu henni síðan, eftir að hafa kúgað hærri greiðslu út úr eiginmanni hennar og logið því að honum að hún væri öll.

Áður en þeir slepptu henni gáfu þeir henni tilmæli um að segja öðrum konum að yfirgefa ofbeldisfulla eiginmenn. Þar að auki afhentu þeir henni minnislykla gögnum um hvernig Kalala skipulagði morðið og kvittunum frá Western Union um peningamillifærslur fyrir morðinu.

„Hann leit á mig og svo segir hann, „Við ætlum ekki að drepa þig. Við drepum ekki konur og börn.“

Leiðtoginn sagði Rukundo að hún væri heimsk fyrir að hafa ekki áttað sig á því að eitthvað mikið væri að í hjónabandinu. Hann hafi verið að skipuleggja morðið frá því í nóvember árið áður.

Hrökk í kút

Rukundo sneri aftur til Melbourne þann 22. febrúar  og komst að því að Kalala hefði upplýst samfélagið um að hún hefði látist í sorglegu slysi. Hann hafði eytt deginum í að taka á móti syrgjendum sem margir hvergir gáfu honum pening.

Hún fylgdist með á meðan síðustu gestir minningarathafnarinnar yfirgáfu heimili hennar en þegar þeir keyrðu í burtu tók Kalala loks eftir henni.

„Hann talaði við sjálfan sig og þegar hann náði til mín, snerti hann öxl mína. Hann hrökk í kút. Hann gerði það aftur. Hann hoppaði. Svo sagði hann „Noela, ert þetta þú?“....Svo byrjaði hann að öskra, „Mér þykir fyrir þessu öllu“.

Rukundo hringdi á lögreglunna sem handtók Kalala. Seinna fékk hún nálgunarbann gegn honum og náði játningu hans á hljóðupptöku eftir leiðbeiningum lögreglunnar. Á upptökunni má heyra hann grátbiðja um fyrirgefningu. Rukundo segir ástæðuna fyrir morðtilrauninni hafa verið afbrýðisemi, hann hafi haldið að hún vildi yfirgefa hann fyrir annan mann.

„Ég vissi að hann væri ofbeldisfullur maður,“ sagði hún. „En ég trúði því ekki að hann gæti drepið mig. Ég elskaði þennan mann af öllu hjarta.“

Kalala neitaði lengi vel  sök við yfirheyrslur en þegar upptakan var lögð fram ásamt sönnunargögnunum frá Búrúndí brotnaði hann niður.

Hann gat þó ekki útskýrt hegðun sína með neinu öðru en því að „stundum getur djöfullinn komið inn í einhvern til að gera eitthvað en eftir að þeir gera það byrja þeir að hugsa „Hvers vegna gerði ég þetta?““.

Kalala var dæmdur í níu ára fangelsi þann 11. desember síðastliðinn eftir að hafa játað brot sín. Rukundo segir þó suma innan samfélags fólks af afrískum uppruna í Melbourne, þar sem hjónin bjuggu, kenna henni um gjörðir hans og að hún og börn þeirra séu útskúfuð úr samfélaginu.

„Én ég mun standa sem sterk kona,“ sagði hún. „Aðstæður mínar? Mitt fyrra líf? Það er farið. Ég er að hefja nýtt líf núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert