Óvissustigi aflétt fyrir Vestfirði

Frá Vestfjörðum. Áfram verður töluverður vindur í landshlutanum.
Frá Vestfjörðum. Áfram verður töluverður vindur í landshlutanum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur nú verið aflétt fyrir alla Vestfirði. Ennþá er þó líklega viðvarandi hætta á snjóflóðum í landshlutanum að sögn veðurfræðings á vakt. Einhver él gætu þá orðið í Reykjavík í dag.

„Við afléttinguna er meira verið að hugsa um byggðina en til fjalla eru hengjur hér og þar eftir snjóinn og vindinn undanfarna daga. Vélsleðamenn geta því auðveldlega komið snjóflóði af stað fari þeir ekki að öllu með gát,“ segir Óli Þór Árnason veðurfræðingur á vakt Veðurstofunnar.

„Næsta sólarhringinn verður norðaustanátt. Hún er svo sem ekki mjög hvöss nema helst á Vestfjörðum, þar verður einna hvassast eða í kringum 13 til 18 metrar á sekúndu. Hægur vindur verður á norðaustur- og austurlandi fram á kvöld,“ segir Óli.

Heldur bætir í vind á morgun að hans sögn.

„Þá er það í kringum 13 til 18 metra á sekúndu, bæði á Vestfjörðum og Breiðafirði og svo líka í kringum suðausturströndina, en heldur hægari annars. Svo er éljagangur. Ég taldi að það yrði þurrt hér í Reykjavík í dag en nú þori ég ekki að lofa því. Það er viðbúið að einhver él verði í dag en morgundagurinn ætti að verða þurr. Rauði þráðurinn er norðaustanátt og él.“

Frétt mbl.is: Hættustigi aflýst á Patreksfirði

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert