Efla þekkingu á ofbeldi gegn fötluðum börnum

Veittar verða þrjár milljónir kr. til þess að efla vitund og þekkingu þeirra aðila sem koma að þegar grunur leikur á að fatlað barn hafi orðið fyrir ofbeldi.

Heils dags ráðstefna fyrir það fagfólk sem kemur að málaflokknum verður haldin auk námskeiðs fyrir starfsfólk stofnana sem koma að málaflokknum og sérstaks námskeiðs fyrir starfsfólk Barnahúss.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, ákvað þetta segir í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu en fræðslan er liður í verkefninu Landssamráð gegn ofbeldi. 

„Ofbeldi er alltaf alvarlegt en við vitum líka að sumir hópar eru líklegri en aðrir til þess að sæta ofbeldi og eiga jafnframt erfiðara með að sækja sér hjálp. Fötluð börn eru viðkvæmur hópur hvað þetta varðar og því þarf að beina sjónum að þeim sérstaklega“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra í tilkynningunni.

Landsamráð gegn ofbeldi er samstarfsverkefni heilbrigðis-, mennta-, og löggæslustofnana gegn ofbeldi á landinu. Velferðar-, mennta- og innanríkisráðuneytin leiða verkefnið en stofnað var til verkefnisins í lok árs 2014. Starfið var svo nánar kynnt á fundi í október síðastliðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert