Fjögurra ára fangelsi fyrir barnaníð

Dómarar töldu að skýring hans á því af hverju hann …
Dómarar töldu að skýring hans á því af hverju hann greiddi móður stúlkunnar verulega fjárhæð eftir að hún ásakaði hann um að hafa níðst á stúlkunni og eyðilagt líf hennar mjög ótrúverðuga.

Fjölskipaður dómur Héraðsdóms Reykjavíkur dæmdi nýverið mann í fjögurra ára fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gagnvart frænku sinni þegar hún var þrettán til sextán ára gömul. Stúlkan dvaldi langdvölum á heimili mannsins, en mæður þeirra eru systur, vegna veikinda móður stúlkunnar. Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða stúlkunni 1,2 milljónir króna í miskabætur og allan sakarkostnað.

Stúlkan leitaði til Stígamóta nokkrum árum eftir að brotin voru framin og í vottorðum þaðan kemur fram að hún hafi farið í fjögur viðtöl haustið 2013. Einnig hefði hún leitað einu sinni til Stígamóta 2009 en hefði þá ekki verið reiðubúin að nýta sér þjónustuna. Í vottorðunum segir að hún hafi greint „frá kynferðisofbeldi af hálfu frænda síns sem hófst þegar hún bjó á heimili hans. Hún lýsti því hvernig hann hafi með skipulegum hætti byggt upp traust þeirra á milli sem hann hafi svo nýtt sér til að brjóta á henni kynferðislega.“

Þá kemur fram að hún sé að glíma við afleiðingar þessa. Hún sé kvíðin og með lélega sjálfsmynd. Einnig hefði hún leiðst út í neyslu fíkniefna. Loks segir að brotaþoli hafi „tekið ábyrgð á ofbeldinu, verið með sektarkennd og skammast sín mikið. Þess ber að geta að þetta eru allt algengar afleiðingar af kynferðislegu ofbeldi.“

Upplifði að hún hefði gert eitthvað rangt og þyrfti að hugga frænda sinn

 Brotin sem maðurinn var ákærður fyrir voru framin á tímabilinu 2005-2008 en fjögur brot af sex voru fyrnd. Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa beðið stúlkuna þegar hún var þrettán ára gömul að  nudda bert bak hans, þar sem hann lá á rúmi sínu, þannig að hún sat klofvega yfir rassi hans, síðan snúið sér við þannig að hún sat klofvega yfir kynfærasvæði hans og beðið hana um að nudda bera bringu hans, strokið mjaðmir hennar og rass utan klæða og hreyft hana til í samfarahreyfingum.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að stúlkan varð skelfingu lostin þegar  hann hefði farið að hreyfa hana í takt eins og um samfarir væri að ræða, en þetta hefði verið í fyrsta skipti sem hún hefði setið svona kynferðislega ofan á karlmanni.

 Hún kvað sér hafa fundist eins og hann vissi að hann hefði verið að gera eitthvað rangt, eins og hann hefði misst stjórn á sér. Hún kvaðst hins vegar hafa upplifað þetta þannig að hún hefði gert eitthvað rangt og þurft að hugga frænda sinn. Þetta hafi verið í fyrsta skipti sem hann  gerði henni eitthvað þessu líkt.

Í öðrum lið ákærunnar kemur fram að þegar hún var þrettán ára gömul hafi hann haldið henni niðri, þar sem hún lá á rúmi hans, strokið líkama hennar og rass, og þrátt fyrir að hún bæði hann um að hætta, tekið í buxnastreng hennar, sett titrara inn fyrir buxur hennar og inn í kynfæri hennar og kveikt á titraranum, sett hönd hennar á getnaðarlim hans og látið hana fróa honum, og síðan sett getnaðarliminn í munn hennar, haldið um hnakka hennar og látið hana hafa við hann munnmök þar til hann fékk sáðlát. 

Ástandið svo slæmt heim hjá henni að hún vildi frekar taka áhættuna 

Maðurinn var dæmdur sekur um þessa tvo liði ákærunnar en hinir fjórir ákæruliðirnir voru fyrndir þar sem fyrningarfresturinn í þeim málum er fimm ár.

Stúlkan ítrekaði fyrir dómi að hún hefði sótt í að vera á heimili mannsins enda hefði hún verið þar hjá heilbrigðri fjölskyldu. Ástandið hefði verið svo slæmt heima hjá henni að hún hefði frekar viljað vera á heimili hans og taka áhættuna á því að vera misnotuð heldur en að vera heima hjá sér. Þá hefði hún talið sér trú um að maðurinn væri veikur og réði ekki við sig. Einnig kom fram hjá henni að hún hafi oft tekið vinkonur sínar með sér því þá hefði hann ekki getað gert henni neitt.

Skrifaði móður sinni bréf

Upphaf ákærunnar má rekja til þess er móðir stúlkunnar skýrði lögreglu frá því að hún hafi verið ráðalaus vegna hegðunar dóttur sinnar á unglingsárum hennar. Dóttir hennar hefði reynst ófáanleg til að segja frá því hvað hrjáði hana fyrr en á árinu 2011 er hún hefði sagt sér frá kynferðisbrotum frændans gegn henni.

Í framhaldinu stúlkan leitað til sálfræðings og eins til Stígamóta. Þá hefði hún skrifað sér bréf. Móðirin lést áður en hún gat komið bréfinu til lögreglu en stúlkan fann hluta af bréfinu og kom því til lögreglu. Bréfhlutinn er ritaður aftan á umslag sem ber póststimpil með dagsetningunni 27. janúar 2010.

Bréfhlutinn er svohljóðandi: „13 ára þegar hann bað mig um að nudda á sér bakið. Held ég gerði það svona 2-3 x. Byrjaði að sýna mér myndband af honum og fyrrverandi hans vera að ríða. Talaði við mig um strákavandamál og ég fór að treysta honum fyrir öllu. Hann hrósaði mér útlitslega og byggði mig upp. Fór að vilja skoða mig, snerta mig og kyssa mig. Ég fraus því mér fannst ég skulda honum þetta því hann sýndi mér hlýju. Fann vanmátt og fannst öllum vera sama um mig. Hann vissi hluti um mig sem ég vissi að hann gæti notað gegn mér t.d. að ég væri búin að prófa að reykja hass. Ég var alltaf í afneitun að hann myndi gera svona aftur því hann baðst svo mikið afsökunar þegar hann var að þreifa á mér.“

Fékk systurson sinn til þess að greiða sér bætur fyrir brotin

Í skýrslu móðurinnar kom enn fremur fram að hún hefði haft samband við systurson sinn eftir að dóttir hennar hafði skýrt henni frá brotum hans. Móðirin kvaðst hafa krafið hann um bætur til að standa straum af kostnaði við sálfræðiaðstoð við stúlkuna og hefði hann greitt henni um 300 þúsund krónur samtals, ýmist inn á bankareikning hennar eða í peningum.

Lögreglan rannsakaði síma móðurinnar og ákærða. Í síma hennar voru tíu smáskilaboð sem send voru ákærða á tímabilinu frá 25. maí 2011 til 17. janúar 2013. Í þessum skilaboðum ásakar móðirin ákærða fyrir að hafa misnotað brotaþola og eyðilagt líf hennar. Hún kallar hann barnaníðing, hótar að kæra hann og fer fram á skaðabætur. Á tímabilinu 15. febrúar 2012 til 5. mars sama ár sendir ákærði henni fern skilaboð.

Maðurinn neitaði alfarið að hafa brotið gegn stúlkunni. Hann kvað hana hafa verið á heimili fjölskyldu hans á umræddum tíma en ekki eins mikið og hún hafði borið um. Þá kvaðst hann hafa greitt móður hennar um 400 þúsund krónur til að komast undan kæru vegna kynferðisbrota gagnvart stúlkunni. Þetta hefði hann gert þrátt fyrir að hann væri saklaus. Hann hefði greitt móður hennar þessa peninga til að losna við málið og til þess að hann yrði látinn í friði.

Dómarar töldu framburð mannsins fyrir dómi var ekki ótrúverðugan að öðru leyti en því, að skýring hans á því af hverju hann greiddi móður brotaþola verulega fjárhæð eftir að hún ásakaði hann um að hafa níðst á brotaþola og eyðilagt líf hennar er mjög ótrúverðug að mati dómsins.

Sú skýring ákærða að hann hafi verið að kaupa sig undan lögreglurannsókn er ekki trúverðug, hafi hann verið saklaus af þeim alvarlegu ásökunum er móðirin bar á hann. Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða dómsins að leggja til grundvallar trúverðugan framburð brotaþola en hafna framburði ákærða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert