Greinin er „ein allsherjarkvörtun“

Straumsvíkurdeilan hefur staðið yfir í langan tíma.
Straumsvíkurdeilan hefur staðið yfir í langan tíma. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Samninganefnd stéttarfélaga í  Straumsvík hefur svarað grein Ólafs Teits Guðnasonar sem birtist í Fréttablaðinu og segja hana „eina allsherjarkvörtun“. Nefndin segir að á meðan forstjóri Rio Tinto þiggi 6 milljónir króna í mánaðarlaun sjái fyrirtækið ofsjónum yfir þeim launum sem 32 Íslendingar sem sinna mötuneyti, hliðvörslu, hafnarvinnu og þvottahúsi fá greidd.

„Almannatengill Rio Tinto, Ólafur Teitur Guðnason, birti grein í Fréttablaðinu á dögunum um kjaradeilur fyrirtækisins við starfsmenn sína. Greinina mætti draga saman í eina allsherjarkvörtun undir yfirskriftinni „Rio Tinto: er eina fyrirtækið sem..." og síðan kemur margvíslegur harmagrátur um það hversu óréttláta meðferð Rio Tinto hljóti af hálfu íslenskra starfsmanna sinna. Sú upptalning er meira og minna til þess fallin að flækja málið,“ segir í tilkynningu frá samninganefndinni.

Vilja fá erlenda gerviverktaka

„Stóra myndin er einföld. Á meðan forstjóri Rio Tinto þiggur 6 milljónir á mánuði í laun, sjá bókarar Rio Tinto ofsjónum yfir þeim launum sem 32 Íslendingar sem sinna mötuneyti, hliðvörslu, hafnarvinnu og þvottahúsi fá greidd. Rio Tinto vill ekki greiða íslensk laun fyrir þessi störf. Þeir vilja fá erlenda gerviverktaka til að sinna þeim á launum sem eru langt undir íslenskum töxtum.

Ef Rio Tinto vill telja endilega upp þá hluti sem þeir eru einir um á íslenskum vinnumarkaði, þá er auðvelt að rifja það upp.

*  Álverin eru einu fyrirtækin sem fá sérkjör á orkuverði.

*   Álverin eru einu fyrirtækin sem komast upp með að greiða lágmarksskatta, en skila um leið erlendum eigendum sínum ofurgróða.

*   Rio Tinto er eina fyrirtækið á Íslandi sem hefur í 45 ár aðeins þurft að eiga við eitt sameinað trúnaðarráð stéttarfélaga þegar semja á um kaup og kjör.

*   Rio Tinto er líklega eina stórfyrirtækið hérlendis sem hefur ALDREI þurft að þola verkfall af hálfu starfsmanna sinna.

En nú er svo komið að Rio Tinto er ekki bara eina fyrirtækið sem hefur notið þessara sérkjara á íslenskum vinnumarkaði, heldur eru þeir örugglega líka eina fyrirtækið sem lætur sér detta í hug að kvarta yfir þessari skipan mála. Rio Tinto vill sem sagt bæði eiga kökuna og éta hana. Og það veit hvert fimm ára barn að er ekki hægt,“ segir í tilkynningunni.

Íslensk laun fyrir störf í Straumsvík

Þar kemur einnig  fram að kjaradeila starfsmanna álversins við Rio Tinto snúist um það grundvallaratriði að borguð séu íslensk laun fyrir störf í Straumsvík.

„Íslenskt orkuverð og erlend skattafríðindi í áratugi ættu að vera stórfyrirtækinu og stjórnendum þess næg greiðsla fyrir að vernda störf 32 lægst launuðustu starfsmannanna í álverinu. Krafa okkar er íslensk laun fyrir störf í Straumsvík og fyrr verður ekki samið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert