„Samningurinn virkar mjög vel“

Claude Maerten, deildarstjóri í utanríkisþjónustu ESB.
Claude Maerten, deildarstjóri í utanríkisþjónustu ESB. Ljósmynd/EFTA

„Markmið EES-samningsins er að tryggja að innri markaðurinn starfi sem skyldi fyrir þau 31 ríki sem eiga aðild að honum. Þetta er mikilvægt pólitískt markmið. Þetta var staðan fyrir tveimur áratugum, þannig er staðan enn í dag og þannig verður hún líka á morgun.“

Þetta segir Claude Maerten, deildarstjóri í utanríkisþjónustu Evrópusambandsins, í samtali við mbl.is spurður um framtíð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) frá sjónarhóli samabndsins. Maerten ávarpaði í dag opinn fund á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi sem fram fór í Norræna húsinu þar sem fjallað var um skýrslu stýrihóps undir formennsku Páls Þórhallssonar um framkvæmd EES-samningsins.

„Fyrir vikið er mikilvægt að við tryggjum áfram frjálst flæði varnings, fólks, fjármagns og þjónustu vegna þess að það skiptir miklu máli fyrir öll ríkin sem í hlut eiga. Þetta er það næsta sem við höfum komist í samruna á milli ríkja sem tilheyra Evrópusambandinu og sem standa utan þess og við teljum að þetta fyrirkomulag feli í sér gagnkvæman ávinning,“ segir Maerten ennfremur.

„Hvort EES-samningurinn kann einhvern tímann að heyra sögunni til veit ég ekki. Ekkert slíkt stendur til eins og staðan er í dag enda sjáum við enga ástæðu til þess að breyta þessu fyrirkomulagi. Það gengur vel þó það vanti stundum upp á að löggjöf frá Evrópusambandinu sé innleidd á réttum tíma, en það er unnið að því að bæta úr því. En samningurinn virkar mjög vel.“

Maerten rifjar upp að hann hafi stýrt fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar á föstudaginn þar sem 77 lagagerðir Evrópusambandsins hafi verið teknar upp í EES-samninginn. „Það er gott dæmi um það að þetta samstarf okkar gengur vel. Þetta er samningur sem virkar vel og það er engin ástæða til þess að breyta einhverju sem er að virka eins og það á að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert