Vill að áfengisfrumvarpinu verði hafnað

AFP

„Fjölmargar rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi auki neyslu í samfélaginu, en slíkt hefur verulegar neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir börn, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt,“ segir í umsögn Umboðsmanns barna um svonefnt áfengisfrumvarp sem felur í sér að ríkið láti af einkasölu sinni á áfengi og sala þess verði gefin frjáls. Umboðsmaður barna segist hafa þungar áhyggjur af frumvarpinu og voni „innilega“ að það nái ekki fram að ganga.

„Fjöldinn allur af fagaðilum, bæði á sviði heilbrigðisvísinda og félagsvísinda, hafa stigið fram og varað við þeim skaðlegu áhrifum sem ofangreint frumvarp mun hafa í för með sér, ekki síst fyrir börn,“ segir ennfremur í umsögninni og að Umboðsmaður barna velti fyrir sér hvaða hagsmuna sé verið að gæta með frumvarpinu. Minnt er á að þingmönnum og öðrum opinberum aðilum beri að setja hagsmuni barna í forgang við allar ákvarðanir sem varða þau.

Skorar Umboðsmaður barna á þingmenn að virða réttindi barna og hafna frumvarpinu. Vísað er í ákvæði stjórnarskrárinnar um að með lögum skuli tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ljóst er að aukið aðgengi að áfengi gangi þvert á þessi réttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert