Ferðamenn fram úr væntingum

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonir standa til þess að hægt verði að aflétta fjármagnshöftunum síðar á þessu ári. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins sem stendur yfir í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Bjarni fór í erindi sínu yfir stöðuna í íslenskum efnahagsmálum.

Bjarni fjallaði meðal annars um fall viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 og setti það í samhengi við fall bandarískra banka. Væri fall bankanna þriggja lagt saman hefðu aðeins fall tveggja bandarískra banka verið verra. Efst á þeim lista væri fall bankans Lehman Brothers skömmu áður en íslensku bankarnir féllu. Fór hann yfir það hvernig tekið hefði verið á efnahagserfiðleikunum sem fylgdu í kjölfarið. Þar á meðal miklum skuldum.

Fjármálaráðherra greindi frá stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum þar sem lögð væri meðal annars megináherslu á að lækka skuldir ríkisins og þar með um leið vaxtakostnað sem væri mjög mikill. Þegar hefði náðst verulegur árangur í þeim efnum. Bjarni ræddi einnig um ferðamannaiðnaðinn á Íslandi og mikinn vöxt í honum. Fyrir áratug hefði árlegur fjöldi ferðamanna til landsins verið um 500 þúsund manns en væri þrefaldur sá fjöldi í dag.

Bjarni sagði að fjöldi ferðamanna hefði þannig farið langt fram úr vonum. Helstu áskoranirnar í þeim efnum snerust um að tryggja að innviðirnir réðu við vaxandi fjölda ferðamanna. Ekki síst varðandi öryggi ferðamanna og viðhald ferðamannastaða. Unnið væri í þeim efnum þó ekki væri kominn endanleg niðurstaða í það með hvaða hætti það yrði fjármagnað til framtíðar. Önnur áskorun væri svarta hagkerfið og hvernig væri tekið á þeim málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert