Vöktun mögulega næsta skref

Ferðamenn hafa margoft lent í sjálfheldu í Reynisfjöru.
Ferðamenn hafa margoft lent í sjálfheldu í Reynisfjöru. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, tekur undir orð Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi, um að bregðast verði við þeim óhöppum sem hafa orðið í Reynisfjöru. Ef upplýsingaskiltin dugi ekki til þurfi að kanna hvort þörf sé á öryggisgæslu á svæðinu.

Sveinn Kristján greindi frá því í samtali við Rúv í morgun að gæslumaður þurfi að vera til taks í Reynisfjöru til að auka öryggi ferðamanna sem þangað koma. 

„Það er búið að vera mikið um óhöpp þarna. Þetta er fallegt og skemmtilegt svæði en það er hætta þarna sem ferðamenn átta sig ekki á. Eitthvað verður til bragðs að taka og ég hef fullan skilning á athugasemdum yfirlögregluþjóns, enda er hann ábyrgðaraðili á þessu svæði,“ segir Smári í samtali við mbl.is. 

Viljum hnökralausa ferðaþjónustu

Hann bætir við að landeigendur eða þeir sem hafa afnot af landinu hljóti að vilja bregðast við ástandinu á einhvern hátt.

„Við verðum að taka höndum saman og bregðast við þessu. Við viljum hafa þessa ferðaþjónustu hnökralausa. Við viljum engum svo illt að lenda í tjóni á þessum magnaða stað sem Reynisfjara er,“ segir Smári. 

Nokkrir ferðamenn lentu í sjálfheldu í Reynisfjöru 1. febrúar og náðust myndir af einum þeirra.

Frétt mbl.is: Á bólakaf við Reynisfjöru

Öldruð kona frá Bandaríkjunum drukknaði í fjörunni árið 2007.

Frétt mbl.is: Brimaldan sogaði konuna á haf út og ógnaði samferðarmönnum

Smári Sigurðsson, formaður Landsbjargar, segir að bregðast þurfi við ástandi …
Smári Sigurðsson, formaður Landsbjargar, segir að bregðast þurfi við ástandi mála í Reynisfjöru. mbl.is/Styrmir Kári

Félagið margoft kallað út í Reynisfjöru

Að sögn Sveins Rúnars hefur Slysavarnarfélagið Landsbjörg margoft verið kallað út þegar óhöpp hafa orðið í Reynisfjöru.

„Oftar en ekki hafa aðrir ferðamenn eða fararstjórar bjargað því sem bjargað verður. En við höfum farið margoft í útköll á þetta svæði.“

Frétt mbl.is: Í hættu í briminu í Reynisfjöru

Félagið hafði á sínum tíma forgöngu í því að koma upp leiðbeiningarskiltum á svæðinu fyrir ferðamenn en þau virðast engan veginn duga til.

„Þetta er fjölfarinn staður og það eru ekki allir með fararstjóra. Ég er ekki hrifinn af boðum og bönnum en ef það dugar ekki að vera með upplýsingaskilti er kannski næsta skref að íhuga einhvers konar vöktun, þannig að hægt sé að koma skilaboðum til ferðamanna. Ég veit ekki hverjir ættu að sjá um hana en ég fagna áherslu lögreglustjórans á þetta svæði," segir Smári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert