Funda vegna banaslyssins

Frá Reynisfjöru í morgun.
Frá Reynisfjöru í morgun. mbl.is/Jónas Erlendsson

Banaslysið í Reynisfjöru í morgun og staða öryggismála á svæðinu verður rædd á fundi almannavarnanefndar Mýrdalshrepps á morgun. Sveitarstjóri hreppsins segir ekki hafa komið til tals að loka svæðinu en rætt hafi verið um að setja upp fleiri skilti og viðvaranir.

„Það er auðvitað margbúið að funda um þetta og reyna að setja upp viðvaranir og allt sem menn hafa getað gert, annað heldur en þá að loka bara svæðinu. Mönnum hefur ekki dottið það í hug ennþá. En að reyna að setja upp skilti og aðvaranir. Það hefur verið mikið brim að undanförnu og mikið sagt frá því en núna er lítil alda,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi, í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Aldan skall á stuðlaberginu

Hann segir að einnig þurfi að ræða við stjórnvöld í landinu í tengslum við máið. „Það er margt sem þarf að skoða í þetta og það er voða erfitt að ræða það til hlítar akkúrat hér og nú. Við munum að sjálfsögðu setjast yfir þetta,“ segir Ásgeir.

Rætt hefur verið um að hafa mann á vakt á svæðinu, jafnvel landvörð. Aðspurður um hvort hann telji að það sé inni í myndinni segist Ásgeir ekki vilja tjá sig um það á þessari stundu.

„Fólk er að ferðast þarna á öllum tímum sólarhringsins. Það þarf þá fleiri en einn mann til að dekka það, að einhver sé þarna til að vara alla við. Þarna koma kannski tíu, fimmtán rútur í einu. Einn maður gerir ekki mikið í að tryggja það að allir þeir viti allt um þessa stöðu. Það eru margir þættir sem þarf að skoða í þessu. Þetta er auðvitað bara hörmulegt slys sem þarna verður og ég held að það sé best að menn hafi sem fæst orð um allt sem hægt er að gera í augnablikinu,“ segir Ásgeir.

Hann segir að ekki hafi komið til tals að loka svæðinu. Svæðið er í einkaeign, um einn fjölsóttasta ferðamannastað á Suðurlandi sé að ræða og sveitarfélagið hafi ekki vald til þess að loka svæðinu sem er óskipt land Reynishverfinga. „Þetta er meira og minna opið svæði,“ segir Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert