Gunnar, Einar Már og Gunnar verðlaunaðir

Gunnar Helgason, Gunnar Þór Bjarnason og Einar Már Guðmundsson ásamt …
Gunnar Helgason, Gunnar Þór Bjarnason og Einar Már Guðmundsson ásamt forseta Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

Gunnar Helgason, Einar Már Guðmundsson og Gunnar Þór Bjarnason hlutu í dag Íslensku bókmenntaverðlaun en forseti Íslands afhenti verðlaunin í dag við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Gunnar hlaut verðlaunin í flokknum Barna- og ungmennabækur fyrir bók sína Mamma klikk! Einar Már var verðlaunaður í flokknum Fagurbókmenntir fyrir bókina Hundadagar en í flokkinum Fræðirit og bækur almenns efnis hlaut Gunnar Þór verðlaunin fyrir bókina Þegar siðmenningin fór fjandans til. 

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.

Kampakátur Gunni klikk!
Kampakátur Gunni klikk! mbl.is/Styrmir Kári

Fjögurra manna dómnefnd valdi verkin 

Forseti Íslands setti samkomuna en því næst flutti Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, stutta tölu og kynnti tilnefnda höfunda. Forseti Íslands kynnti niðurstöður dómnefndar og afhenti verðlaunin. Verðlaunahöfundar ávörpuðu gesti.

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Erna Guðrún Árnadóttir, Hildigunnur Sverrisdóttir, Pétur Þorsteinn Óskarsson og Árni Sigurjónsson, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar.

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki barna- og unglingabóka:

  • Arnar Már Arngrímsson: Sölvasaga unglings Sögur útgáfa
  • Gunnar Theodór Eggertsson: Drauga-Dísa Vaka Helgafell
  • Gunnar Helgason: Mamma klikk! Mál og menning
  • Hildur Knútsdóttir: Vetrarfrí JPV útgáfa
  • Þórdís Gísladóttir: Randalín, Mundi og afturgöngurnar Bjartur

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki fagurbókmennta:

  • Auður Jónsdóttir: Stóri skjálfti Mál og menning
  • Einar Már Guðmundsson: Hundadagar Mál og menning
  • Hallgrímur Helgason: Sjóveikur í München JPV útgáfa
  • Hermann Stefánsson: Leiðin út í heim Bókaútgáfan Sæmundur
  • Jón Kalman Stefánsson: Eitthvað á stærð við alheiminn Bjartur

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis:

  • Dagný Kristjánsdóttir: Bókabörn Háskólaútgáfan
  • Gunnar Þór Bjarnason: Þegar siðmenningin fór fjandans til - Íslendingar og stríðið mikla 1914 – 1918 Mál og menning
  • Héðinn Unnsteinsson: Vertu úlfur – wargus esto JPV útgáfa
  • Páll Baldvin Baldvinsson: Stríðsárin 1938 – 1945 JPV útgáfa
  • Smári Geirsson: Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 Sögufélag
Ólafur Ragnar Grímsson veitir verðlaunin á Bessastöðum í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson veitir verðlaunin á Bessastöðum í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Ein milljón króna í verðlaun

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda sem stofnað var í Reykjavík í janúar 1889. Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls 10 bækur. Fyrsti verðlaunahafinn var ljóðskáldið Stefán Hörður Grímsson sem hlaut verðlaunin fyrir bókina Yfir heiðan morgun. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig hafa verðlaunin haldist óbreytt þar til ársins 2013 að við bætist flokkur barna- og ungmennabóka.

Tilnefningar eru kynntar þann 1. desember ár hvert og verðlaunin síðan veitt síðla janúar eða í upphafi febrúar. Óháðar tilnefninganefndir, skipaðar þremur dómbærum fulltrúum hver, velja þær fimm bækur í hverjum flokki sem helst þykja skara fram úr. Lokaval er í höndum formanna nefndanna þriggja og forsetaskipaðs dómnefndarformanns. Velja þeir eina bók úr hverjum flokki þannig að þrjár bækur hljóta á endanum Íslensku bókmenntaverðlaunin. Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Bessastöðum við hátíðlega athöfn. Allir sem gefa út bækur á Íslandi geta lagt fram bækur til verðlaunanna sama ár og þær koma út, hvort sem þeir eru í Félagi íslenskra bókaútgefenda eða ekki, og greiða fyrir það hóflegt gjald. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir höfund hvers verðlaunaverks. Íslensku bókmenntaverðlaunin 2014 hlutu Ófeigur Siguðrsson fyrir Öræfi, Snorri Baldursson fyrir Lífríki Íslands og Bryndís Björgvinsdóttir fyrir Hafnfirðingabrandarann.

Þeir sem áður hafa hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin eru:

1989 Stefán Hörður Grímsson

1990 Fríða Á. Sigurðardóttir og Hörður Ágústsson

1991 Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson

1992 Þorsteinn frá Hamri og Vésteinn Ólason, Guðrún Nordal, Sverrir Tómasson

1993 Hannes Pétursson og Jón G. Friðjónsson

1994 Vigdís Grímsdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir

1995 Steinunn Sigurðardóttir og Þór Whitehead

1996 Böðvar Guðmundsson og Þorsteinn Gylfason

1997 Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson

1998 Hörður Ágústsson og Thor Vilhjálmsson

1999 Andri Snær Magnason og Páll Valsson

2000 Gyrðir Elíasson og Guðmundur Páll Ólafsson

2001 Hallgrímur Helgason og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir

2002 Ingibjörg Haraldsdóttir og Pétur M. Jónasson, Páll Hersteinsson,

2003 Ólafur Gunnarsson og Guðjón Friðriksson

2004 Auður Jónsdóttir og Halldór Guðmundsson

2005 Jón Kalman Stefánsson og Kristín G. Guðnadóttir, Gylfi Gíslason, Arthur C. Danto, Matthías Jóhannessen, Silja Aðalsteinsdóttir, Eiríkur Þorláksson

2006 Ólafur Jóhann Ólafsson og Andri Snær Magnason

2007 Sigurður Pálsson og Þorsteinn Þorsteinsson

2008 Einar Kárason og Þorvaldur Kristinsson

2009 Guðmundur Óskarsson og Helgi Björnsson

2010 Gerður Kristný og Helgi Hallgrímsson

2011 Guðrún Eva Mínervudóttir og Páll Björnsson

2012 Eiríkur Örn Norðdahl og Gunnar F. Guðmundsson

2013 Sjón, Sigurjón B. Sigurðsson, Guðbjörg Kristjánsdóttir og Andri Snær Magnason

2014 Ófeigur Sigurðsson, Snorri Baldursson og Bryndís Björgvinsdóttir

2015 Einar Már Guðmundsson, Gunnar Þór Bjarnason og Gunnar Helgason

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert