„Ferðaþjónustan er sýktur geiri“

Halldór segir að mörg hundruð mál komi á borð aðildarfélaga …
Halldór segir að mörg hundruð mál komi á borð aðildarfélaga í hverjum mánuði þar sem tekist er á um launagreiðslur. Þar af eru um 100 sem eru innheimtumál fyrir ungt fólk. Eggert Jóhannesson

Í hverjum mánuði beita aðildarfélög ASÍ sér í nokkur hundruð málum sem tengjast útreikningi á launum. Af þeim eru rúmlega 100 í hverjum mánuði þar sem aðildarfélögin standa í innheimtumáli fyrir ungt fólk. Flest mál leysast fljótt og fæst fara fyrir dómstóla, en þá eru líka fjölmörg mál þar sem erfiðlega gengur að sýna fram á vinnutíma og aðra samtímaskráningu sem getur veikt stöðu launafólks í slíkum málum. Þetta segir Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ, í samtali við mbl.is.

Sambandið setti nýlega í loftið nýtt app sem nefnist Klukk sem á að hjálpa til við þessi mál með því að skrá niður vinnustundir fólks. Er appið sérstaklega hugsað fyrir ungt fólk en Halldór segir það þó vera fyrir alla. Segir hann að ungt fólk vinni mikið í óreglulegri vinnu og hlutavinnu, meðal annars í ferðaþjónustu, veitingageiranum og í verslun og þar geti þetta verið mjög sniðugt til að halda utan um vinnustundirnar.

Mörg mál falla niður vegna skorts á gögnum

„Appinu er ætlað að auðvelda fólki að bæta úr ranglætinu,“ segir Halldór, en áður hefur komið fram að ASÍ telji launaþjófnað nema milljörðum á hverju ári og er ungt fólk stór hluti þeirra sem verða fyrir því. Hann segir að í um það bil þriðjungi mála sem aðildarfélögin fái til sín reyni á skráningar vinnustunda. „Skortur á öllum skriflegum gjörningnum og skortur á samtímaskráningum þessara tíma gerir málarekstur erfiðari,“ segir Halldór og bæir við að of mörg mál falli niður vegna skorts á slíkum gögnum.

Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ.
Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ. Mynd/ASÍ

Frétt mbl.is: Launaþjófnaður nemur milljörðum

Niðurhal á appinu telur nú í þúsundum að sögn Halldórs, en engin kynningarherferð hefur enn farið af stað. Meðal atriða sem skráning á að hjálpa til við eru brot á jafnaðarkaupi á yfirvinnu og þegar starfsmenn fá ekki greidd veikindi eða orlof. Leyfir appið fólki að stimpla sig inn og úr vinnu og einnig ef um veikindi er að ræða. Þá er hægt að senda sér tímaskýrslur fyrir ákveðin tímabil og fleira. Er það til fyrir bæði Android og iOS kerfi.

„Ferðaþjónustan er sýktur geiri

Aðspurður í hvaða geirum flest mál séu að koma upp segir Halldór að þó að sambandið fangi þeim vexti sem er að verða í ferða- og veitingaþjónustunni, þá komi hlutfallslega flest mál upp í þessum geirum. Segir hann þetta því ekki huglægt mat heldur byggt á tölulegum staðreyndum. „Auðvitað eru ekki allir í geiranum að stunda launaþjófnað eða svindl, en í ljósi málafjölda er það ekki orðum aukið eða ósanngjörn staðhæfing að veitingageirinn og ferðaþjónustan er sýktur geiri hvað þetta varðar,“ segir Halldór.

Klukk-appið er til bæði fyrir iOS og Android stýrikerfi.
Klukk-appið er til bæði fyrir iOS og Android stýrikerfi. Mynd/ASÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert