Frost á Vesturlandi á föstudag

Spáin á hádegi á föstudag.
Spáin á hádegi á föstudag. Veðurvefur mbl.is

Útlit er fyrir frost á Vesturlandi á morgun, föstudag, með björtu veðri syðst en skýjuðu norðar með vesturströndinni. Á Austurlandi er spáð mildara veðri, jafnvel yfir frostmarki, og einhverri úrkomu.

Hitinn í Reykjavík fer niður í 6 stiga frost um hádegið á morgun og sömu sögu er að segja um Vestfirði. Með kvöldinu fer svo að hlýna aðeins og á laugardaginn verður hitinn í kringum frostmark í Reykjavík en áfram léttskýjað og bjart. Aðeins fer þó að hvessa þá og fer vindurinn upp í 9 metra á sekúndu.

Sjá veðurvef mbl.is

Á Akureyri er spáð þriggja stiga frosti á morgun og snjókomu fyrir hádegi en hálfskýjuðu eftir hádegi. Svipuðum hita er spáð á laugardaginn en engri úrkomu.

Á laugardaginn verður aðeins kaldara á Austurströndinni og fer hitinn niður í þriggja stiga frost á nyrðri hluta strandarinnar. Syðst á Austurlandi verður áfram milt veður, um og yfir frostmark. 

Áfram varhugavert ferðaveður á Austurlandi

Veðurstofan varaði í morgun við varhugaverðru ferðaveðri á Austurlandi og stendur sú athugasemd áfram á vef Veðurstofunnar. Segir þar að skafrenningur sé og vindur frá 10-18 metrar á sekúndu. 

Suðaustan 10-18 m/s á A-verðu landinu með snjókomu og skafrenningi, en slyddu eða rigningu nálægt ströndinni, einkum SA-lands. Ferðaveður á austanverðu landinu er því varhugavert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert