Fyrsti stúlknaflokkurinn í Vatnaskógi

Flokkur eingöngu fyrir stelpur verður í fyrsta skipti í boði …
Flokkur eingöngu fyrir stelpur verður í fyrsta skipti í boði í sumarbúðum í Vatnaskógi í sumar. Ljósmynd/KFUM og KFUK á Íslandi

Í rúm 90 ár hafa strákar skemmt sér í sumarbúðum KFUM og KFUK í Vatnaskógi. Í ár verður sú breyting á að í fyrsta skipti verður einn flokkur yfir sumarið eingöngu ætlaður stelpum en áður hefur verið boðið upp á unglingaflokka fyrir bæði kyn. 

Framkvæmdastjóri sumarbúðanna segir stjórnina og starfsfólkið hafa fundið fyrir þrýstingi frá stúlkum og mæðrum þeirra um að fá tækifæri til að taka þátt í starfinu og var ákveðið að láta reyna á þetta í sumar. 

Stúlkurnar ekki síðri að smíða 

„Við höfum fundið fyrir þrýstingi frá stelpum og jafnvel mæðrum að fá að taka þátt í starfinu í Vatnaskógi. Þetta hefur blundað í okkur í mörg ár og við ákváðum að láta verða af þessu í ár, enda kominn tími til,“ segir Ársæll Aðalbergsson, framkvæmdastjóri Vatnaskógar, í samtali við mbl.is. Flokkurinn verður fyrir stúlkur á aldrinum 11 til 13 ára dagana 21. - 26. júlí. 

Strákamömmur geta einnig glaðst yfir mæðginaflokknum sem boðið verður upp á í fyrsta skipti í sumar en boðið hefur verið upp á feðginaflokk í fjölda ára. „Sá flokkur ýtti einnig undir hugmyndina að hafa flokk einungis fyrir stelpur,“ segir Ársæll.

Þó svo að strákar hafi verið ráðandi í starfi Vatnaskógs í gegnum tíðina hefur sameiginlegur unglingaflokkur verið starfandi frá 1990. Á veturna tekur Vatnaskógur auk þess á móti fermingarhópum.

Góð aðstaða fyrir báta er í Vatnaskógi þar sem hægt …
Góð aðstaða fyrir báta er í Vatnaskógi þar sem hægt er að lenda í ýmsum ævintýrum. Ljósmynd/KFUM og KFUK á Íslandi

Starfið í Vatnaskógi einkennist meðal annars af útiveru, íþróttaiðkun og hópefli. Á svæðinu er auk þess stórt íþróttahús, fótbolta- og frjálsíþróttavellir, smíðaverkstæði og bátar.

„Viðburðirnir í Vatnaskógi eiga alveg eins erindi til stelpna líkt og stráka. Það sem aðgreinir okkur frá öðrum sumarbúðum er einna helst báta- og smíðaaðstaðan sem stelpurnar munu njóta góðs af, enda eru þær ekki síðri smiðir en strákarnir, dæmin hafa sannað það,“ segir Ársæll.

Stúlkur meira fyrir hópefli

Auk sumarbúða í Vatnaskógi rekur KFUM og KFUK sumarbúðir í Vindáshlíð og Ölveri sem eru eingöngu ætlaðar stelpum, að undanskildum einum strákaflokki í Ölveri, svokölluðum pjakkaflokki, fyrir 6-9 ára stráka. Framboð fyrir stelpur er því ekki af skornum skammti.

„Stelpur eru bara meira til í að fara í sumarbúðir en strákar. Þær eru meiri hópeflismanneskjur, það er að minnsta kosti okkar upplifun,“ segir Ársæll. 

Hann hefur því ekki fundið fyrir þrýstingi frá strákum sem vilja komast í Vindáshlíð sem hafa að undanförnu verið einar vinsælustu sumarbúðir landsins. „En það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Hver veit nema að við bjóðum upp á strákaflokk í Vindáshlíð seinna meir,“ segir Ársæll að lokum.   

Gönguferðir, kvöldvökur og útivera eru meðal þess sem brallað er …
Gönguferðir, kvöldvökur og útivera eru meðal þess sem brallað er í sumarbúðum í Vatnaskógi. Ljósmynd/KFUM og KFUK á Íslandi

Skráning í sumarbúðir KFUM og KFUK hefst 16. mars. Í Vatnaskógi tekur hver flokkur 95 manns og því má gera ráð fyrir að tæplega 100 stelpur muni upplifa skemmtileg ævintýri í Vatnaskógi í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert