Tilvonandi geimfarar á Íslandi

Gísli hitti forseta Íslands í gærkvöldi ásamt félögum sínum sem …
Gísli hitti forseta Íslands í gærkvöldi ásamt félögum sínum sem ætla út í geiminn. Mynd/Gísli Gíslason

Hópur fólks sem ætlar út í geim með flugfélaginu Virgin Galactic er staddur á Íslandi. Gísli Gíslason, sem á miða númer 258 út í geiminn, var með hópnum á Hótel Borg í gærkvöldi og þar hitti fólkið Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands.

„Þetta er nokkuð stór hópur sem reynir að hittast reglulega hér og þar um heiminn. Það hafa verið skipulagðar ferðir til London, Bandaríkjanna og Afríku og núna þótti spennandi að kíkja á Íslandi,“ segir Gísli.

Hópurinn ætlar að fara á Langjökul í dag og hverfur svo af landi brott á sunnudagsmorgun.

Hefði verið gaman að hitta Branson 

Richard Branson, eigandi Virgin Galactic, hefur stundum hitt hópinn en ekki í þetta sinn. „Hann dúkkar stundum upp en kom ekki núna. Það hefði verið gaman að fá hann,“ segir Gísli.

Flestir í hópnum hafa lokið geimþjálfun sem er skilyrði að klára áður en farið er út í geiminn. Gísli lauk sinni þjálfun í Fíladelfíu í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum. Hann vonast til að komast út eftir tvö ár, ef allt gengur upp.

Ný flugvél vígð í febrúar

Ný geimflugvél Virgin Galactic verður vígð í Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu um miðjan febrúar. Síðasta vél fyrirtækisins sprakk í tilraunaflugi í nóvember 2014, þar sem annar flugmaðurinn fórst. Að sögn Gísla voru mannleg mistök sem ollu því að vélin sprakk og búið er að koma í veg fyrir að samskonar mistök geti gerst aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert