Meirihlutinn vill gera eigin könnun

Tillagan fer fyrir borgarstjórn eftir að fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði …
Tillagan fer fyrir borgarstjórn eftir að fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn henni. mbl.is/Styrmir Kári

Meirihlutinn í borgarráði Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að fela skrifstofu borgarstjóra að útfæra þjónustukönnun meðal borgarbúa. Þessi ákvörðun kemur í kjölfar ákvörðunar meiri­hlutans um að kaupa ekki þjón­ustu­könn­un Gallup.

Frétt mbl.is: „Reyna að forðast óþægilegt umtal“

Borgarráð samþykkti tillöguna á fundi sínum fyrr í dag en í heild sinni hljóðar hún svo:

,,Borgarráð samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í samráði við fagsvið Reykjavíkurborgar að útfæra þjónustukönnun meðal borgarbúa með áherslu á notendur þjónustu og þjónustu í hverfum borgarinnar.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði greiddu atkvæði gegn tillögunni og mun málið því fara fyrir borgarstjórn. Lýsa þeir yfir furðu sinni á tillögunni því í henni felist einstakt tækifæri til að bera þjónustu sveitarfélaga saman og gera betur þar sem þjónusta borgarinnar mælist léleg.

„Alveg sama hver er í meirihluta“

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokks segir í samtali við mbl.is að ákvörðunin sé þvert á stefnu meirihlutans um opna stjórnsýslu, aukið gegnsæi og meira upplýsingaflæði til íbúa borgarinnar.

„Mér er alveg sama hver er í meirihluta. Þetta er verkfæri sem okkur býðst að nota til að gera betur og meirihlutinn er með þessu, þveröfugt við það sem liðsmenn hans gefa sig út fyrir, að reyna að halda að upplýsingum frá borgarbúum því þeim þykja þær óþægilegar,“ segir Halldór.

Spurður hvort hagkvæmara sé fyrir borgaryfirvöld að gera þjónustukönnun á eigin vegum segir Halldór það af og frá.

„Nei það verður miklu dýrara. Það er algjörlega mín vissa. Auðvitað er miklu ódýrara að kaupa sig inn í könnun sem gerð hefur verið fyrir 19 sveitarfélög. Hún hefur þegar verið framkvæmd fyrir Reykjavík, þau vilja bara ekki borga fyrir að sjá niðurstöðurnar.“

Reykjavík í öllum tilfellum undir meðaltali

Á síðasta ári kom Reykjavík verst allra sveit­ar­fé­laga út í þjón­ustu­könn­un Gallup, sem mæl­ir viðhorf íbúa til 19 stærstu sveit­ar­fé­lag­anna. Sam­kvæmt könn­un­inni fékk borg­in lök­ustu ein­kunn í svör­um við átta spurn­ing­um af tólf og var hún í öll­um til­fell­um und­ir meðaltali í sam­an­b­urði við hin sveit­ar­fé­lög­in.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu eins og áður sagði atkvæði gegn tillögunni. Þá létu þeir bóka eftirfarandi:

„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir furðu á tillögu borgarstjóra um að gera sérstaka könnun fyrir Reykjavíkurborg. Könnun Gallup nær til 19 stærstu sveitarfélaga landsins og er einstakt tækifæri til að bera þjónustu þeirra saman og gera betur í þeim þáttum sem mælast lágt,“ segir í bókun fulltrúanna.

Málefnasamningurinn „einungis orð á blaði“

Meirihluti Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna vill ekki nýta sér slíka könnun. Það er væntanlega í samræmi við ákvæði málefnasamnings þessara fjögurra flokka sem halda um stjórnartaumana í Reykjavíkurborg þar sem segir: ,,Við hlustum á alls konar raddir og sköpum þeim vettvang. Með opnari stjórnsýslu verður samræðan upplýstari, ákvarðanatakan skilvirkari og sáttin meiri.“

„En þetta eru einungis orð á blaði og eftir því sem líður á kjörtímabilið verður sífellt skýrara að ekkert á að gera með þau. Ef þjónustukönnun kemur ekki nógu vel út fyrir borgina er hún ekki keypt og þar með reynt að koma í veg fyrir að borgarbúar fái upplýsingar um hvernig mat þeirra á þjónustu borgarinnar kemur út. Og til að bíta höfuðið af skömminni hyggst meirihlutinn láta vinna sérstaka könnun fyrir sig, væntanlega í þeim tilgangi að stýra upplýsingagjöfinni til borgarbúa og fá könnun sem lítur betur út en samanburðarkönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins.

Í stað þess að þessi vinnubrögð meirihlutans séu í anda upplýsingar og sáttar eru þessi vinnubrögð dæmi um lokaða stjórnsýslu og minni upplýsingagjöf, jafnvel falsaða upplýsingagjöf svo borgarbúar átti sig síður á hversu illa þessi fjögurra flokka meirihluti heldur um stjórnartaumana í Reykjavíkurborg.“

--

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokks segir könnunina vera verkfæri.
Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokks segir könnunina vera verkfæri.
Á síðasta ári kom Reykjavík verst allra sveit­ar­fé­laga út í …
Á síðasta ári kom Reykjavík verst allra sveit­ar­fé­laga út í þjón­ustu­könn­un Gallup. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert