Lögreglumenn rannsaki ekki starfsfélaga sína

Í núverandi reglum um meðferð kærumála á hendur starfsmanni lögreglu …
Í núverandi reglum um meðferð kærumála á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans kemur fram að lögreglu ber að veita saksóknara aðstoð við rannsókn mála. Skapti Hallgrímsson

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, fjallaði um reynslu sína af eftirliti með lögreglu og þá framtíðarsýn sem hann hefur í þeim efnum á málþingi sem haldið var af innanríkisráðuneytinu í samstarfi við Lagadeild Háskólans í Reykjavík og Lagadeild Háskóla Íslands í dag.

Snorri var kynntur til sögunnar sem „rödd lögreglunnar“ af Sigurði Tómasi Magnússyni, atvinnulífsprófessor við Lagadeild HR, og fundarstjóra, en sagði það full djúpt í árina tekið að hann væri rödd lögreglunnar í þessu máli, frekar mætti líta á hann sem rödd lögreglumanna.

Meðferð kærumála í höndum héraðssaksóknara

Í núverandi reglum um meðferð kærumála á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans kemur fram að beina skal málinu til héraðssaksóknara og fer hann með rannsókn málsins. Lögunum var breytt nú um áramót, en áður var meðferð kærumála í höndum ríkissaksóknara.

Við meðferð kærumála getur héraðssaksóknari beitt þeim heimildum sem lögregla hefur endranær. Lögreglu ber að veita saksóknara aðstoð við rannsókn mála samkvæmt þessari grein eftir því sem óskað er.  

Snorri telur það hins vegar varhugavert að lögreglumenn taki þátt í rannsóknum á samstarfsmönnum sínum. „Það er alls ekki nógu gott fyrirkomulag að ætla mér sem lögreglumanni að rannsaka meint brot starfsfélaga, jafnvel þó rannsókn sé á forræði annarrar stofnunar.“

Snorri gagnrýndi jafnframt að málsmeðferðarhraði í rannsóknum vegna mála sem beinast að þeim vegna meintra brota í starfi sé of hægur.

Skipa á eftirlitsnefnd með störfum lögreglu

Nú liggja fyrir drög að frumvarpi til breytingar á lögreglulögum sem fjallar um eftirlit með störfum lögreglu. Drögin eru unnin úr tillögum nefndar innanríkisráðherra um meðferð kvartana og kærumála, sem skipuð var í janúar í fyrra og kynnti skýrslu sína í lok október. 

Í breytingunum felst að ráðherra mun skipa eftirlitsnefnd með störfum lögreglu. Nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og er ekki unnt að skjóta ákvörðunum hennar til æðra stjórnvalds. Nefndin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Nefndarmenn skulu hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði. Mannréttindaskrifstofa Íslands tilnefnir einn nefndarmann, Lögmannafélag Íslands annan en ráðherra skipar þann þriðja án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar.

Hlutverk eftirlitsnefndar er að taka við kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans, taka við kvörtunum vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald.

Hlutverk nefndarinnar verður jafnframt að taka til athugunar mál þegar maður lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni vegna aðgerða eða aðferða lögreglu, eða á meðan maður var í umsjón lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot. Nefndin mun auk þess hafa heimild til að taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði þegar nefndin telur tilefni til.

Snorri segir frumvarpsdrögin ekki uppfylla þær kröfur lögreglumanna um að koma í veg fyrir hlutdrægni í rannsóknum. „Ég held hins vegar að af þeim kostum sem eru í stöðunni sé skárra að fara þá leið sem verið er að leggja til með frumvarpinu heldur en að halfa kerfinu óbreyttu.“

„Traust almennings til lögreglu er ekki sjálfgefið“

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, ávarpaði málþingið og sagði tilefni þess ærið.

„Lögreglunni er ætlað að gæta öryggis okkar borgaranna og halda uppi lögum og reglum. Aðgerðir lögreglunnar geta falið í sér inngrip í mikilsverð mannréttindi borgaranna. Það er því afar mikilvægt að lögreglan njóti trausts í samfélaginu.“

Traust almennings til lögreglunnar hefur jafnan verið mjög mikið. Flestir landsmenn, eða 75,5% treysta lögreglunni mest af öllum stofnunum landsins.

„En traust er ekki sjálfgefið,“ segir Ólöf. „Athafnir og orð lögreglunnar skipta höfuðmáli í því sambandi en einnig umgjörðin sem hún starfar í. Umgjörðin verður að vera þannig úr garði gerð að ekki skapist tortryggni í garð lögreglunnar. Skilvirkt eftirlit með starfsháttum henni og úrræði fyrir borgarana er mikilvægur hluti í slíkri umgjörð.“

Þá segir Ólöf að það sé ekki síður hagur lögreglunnar að skýrar reglur gildi um eftirlit með störfum hennar og að þeim reglum sé fylgt eftir.

Ólöf lauk ávarpi sínu með því að leggja áherslu á að þær tillögur nefndarinnar sem liggja nú fyrir verði ræddar á opinskáan hátt. „Það skiptir máli að tillögurnar fái víðtæka, vandaða og opna umræðu í þjóðfélaginu, meðal lærðra, leikra og á þingi.“

Drögin eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Að sögn Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, er það ekki síður hagur …
Að sögn Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, er það ekki síður hagur lögreglunnar en almennings að skýrar reglur gildi um eftirlit með störfum hennar og að þeim reglum sé fylgt eftir. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert