„Enginn hefur spurt mig hvernig mér líður“

„Skólinn er ekki bara mikilvægur útaf námsmöguleikum heldur einnig vegna …
„Skólinn er ekki bara mikilvægur útaf námsmöguleikum heldur einnig vegna félagslegra tengsla, til að eignast vini og læra tungumál og á samfélagið. Öll börnin þráðu að eignast vini og ég skynjaði mikla löngun í það að tilheyra samfélaginu og fá félagslega viðurkenningu," sagði Helga. Myndin er úr safni. mbl.lis/Eggert Jóhannesson

Börn sem koma hingað til lands og sækja um hæli finnst þau vera hálf ósýnileg í ferlinu. Biðtíminn og óvissan sem fylgir veldur þeim miklu álagi og vita þau yfirleitt hversu mikið er í húfi. Stytta þarf biðtímann, sérstaklega þegar það kemur að barnafjölskyldum.  

Þetta kemur fram í niðurstöðum meistararannsóknar Helgu Guðmundsdóttur í þróunarfræðum við Háskóla Íslands sem fjallar um reynslu barna og foreldra sem hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Helga kynnti rannsóknina á málþingi UNICEF á Íslandi og lög­fræðisvið Há­skól­ans á Bif­röst um flótta­börn sem koma til Íslands og stöðu þeirra sam­kvæmt Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna sem fram fór í gær. 

Við gerð rannsóknarinnar ræddi Helga við tólf börn, tíu foreldra og sjö fagaðila. Með rannsókninni vildi hún varpa ljósi á reynslu og upplifun barna og foreldra sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi. Viðmælendur Helgu voru ýmist að bíða eftir svari frá yfirvöldum eða komin með dvalarleyfi.

„Það er bara talað við mömmu og pabba“

Að sögn Helgu áttu flest börnin mjög auðvelt með að tjá sig. Hún hitti hverja fjölskyldu 2-3 sinnum og hringdi í fjölskyldurnar nokkrum vikum eftir viðtölin. Í flestum tilvikum var notast við túlkaþjónustu.

Í viðtölunum lýstu börnin þau mikla álagi sem þau búa við meðan beðið er eftir niðurstöðu umsóknar þeirra um hæli. Nefndu sum þeirra að þau hefðu verið stressuð við að koma til Íslands því þau vissu ekki hvernig þeim yrði tekið. Þá nefndu börnin einnig að þeim hafi fundist þau vera ósýnileg í ferlinu og lítið sem ekkert rætt við þau af fagaðilum og fulltrúum stofnanna. „Enginn hefur spurt mig hvernig mér líður,“ sagði eitt barnanna. „Það er bara talað við mömmu og pabba.“

Að sögn Helgu er lítið talað við börnin í öllu ferlinu og nefndu sum þeirra dæmi um að þau hafi þurft að bíða frami á meðan foreldrar þeirra ræddu við fulltrúa hinna ýmsu stofnanna. „Börnin nefndu það sjálf að það væri erfitt að sitja og bíða og hugsa um hvað verður og hvað væri að gerast,“ sagði Helga. „Þau upplifa sig sem hálfósýnileg í ferlinu öllu.“

Vita hversu mikið er í húfi

Biðtíminn, óvissan og framtíðarsýn var það sem börnin áttu yfirleitt erfitt með og reyndist biðtíminn þá sérstaklega erfiður. Nefndu þau hann sem álagsvald og höfðu áhrif á andlega líðan barnanna. Fjölskyldurnar höfðu beðið mislengi eftir svari, sumar í ár eða lengur.

„Börnin gera sér mjög oft grein fyrir því hvað mikið er í húfi og vita meira en við höldum að þau viti,“ sagði Helga. „Svo er það líka þannig að eftir því sem lengur líður aðlagast börnin betur og vonir og væntingar aukast með hverjum deginum og því er missirinn meiri og sárari ef umsókninni er hafnað.“

Börnin nefndu það líka að á meðan biðinni stæði ættu þau erfitt með að horfa til framtíðar. „Þau óttast yfirvofandi vá að vera vísað úr landi,“ sagði Helga og bætti við að óvissan hafi t.d. haft áhrif á skólagöngu barnanna. „Sum börnin lögðu að sér að aðlagast en svo kom einnig fram að biðin hafði letjandi áhrif á nám.“

Að sögn Helgu höfðu börnin öll mismunandi skólagöngu að baki …
Að sögn Helgu höfðu börnin öll mismunandi skólagöngu að baki en höfðu það sameiginlegt að skólinn var þeim ofarlega í huga. „Skólinn er eins konar akkeri í þessari óvissu hjá fjölskyldunni og veitir þeim rútínu og tilgang," sagði Helga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skólinn einskonar akkeri

Að sögn Helgu höfðu börnin öll mismunandi skólagöngu að baki en höfðu það sameiginlegt að skólinn var þeim ofarlega í huga. „Skólinn er eins konar akkeri í þessari óvissu hjá fjölskyldunni og veitir þeim rútínu og tilgang. Sögðust þau öll gera sér grein fyrir því að til þess að mynda tengsl og stunda félagslíf og nám þyrftu þau að læra íslensku. „Þau sem ég ræddi við sögðust vera mjög ánægð með skólakerfið og sögðu það frábrugðið því sem þau þekkja. Þeim fannst t.d. alveg meiriháttar að fá að læra sund,“ sagði Helga og bætti við að þau hafi sagt allan aðbúnað betri en þau voru vön.

„Þau eru bara ánægð að fá að vera með hinum krökkunum,“ sagði Helga. Þau nefndu líka að kennarar hefðu verið úrræðagóðir og hjálpsamir og kom í ljós að þeir væru ekki aðeins að sinna hlutverki sínu í kennslu stofunni heldur veittu þeir margvíslega hjálp sem féll ekki endilega undir þeirra starfslýsingu.

Reyndu að læra íslensku með Google translate

Að sögn Helgu er skólavist gífurlega mikilvæg fyrir börnin. Sum reyndu að stunda nám heima á meðan þau biðu ýmist eftir skólaplássi og nokkrir reyndu jafnframt að læra íslensku með hjálp Google Translate. Helga lýsti einu foreldri sem átti erfitt með að halda aftur tárunum þegar það lýsti fyrsta skóladegi barnsins síns á Íslandi. „Núna er ég ánægð, ég er nemandi. Þar til núna var ég ekkert,“ sagði barnið við foreldra sína.

„Skólinn er ekki bara mikilvægur útaf námsmöguleikum heldur einnig vegna félagslegra tengsla, til að eignast vini og læra tungumál og á samfélagið. Öll börnin þráðu að eignast vini og ég skynjaði mikla löngun í það að tilheyra samfélaginu og fá félagslega viðurkenningu,“ sagði Helga.

Mjög þakklát og vilja borga til baka

Að mati Helgu þarf að bæta úr sálrænni aðstoð til hælisleitenda sem finna oft fyrir andlegri vanlíðan. Er fólkið skoðað, en aðeins líkamlega. „Það er klárlega þáttur sem þarf að bæta úr,“ sagði Helga og bætti við að það væri misjafnt hvort að hælisleitendum sé boðin sálræn aðstoð. Þá fannst fólkinu einnig vanta eftirfylgni og eftirlit með því hvernig það náði að fóta sig.

Að mati Helgu er margt vel unnið í þjónustu við börn og  foreldra sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi en þó er margt sem betur má fara. Nefndi hún sem dæmi hversu fullorðinsmiðað umsóknarferlið er og að börnin séu að mörgu leyti ósýnileg í ferlinu. Þau fá sjaldan tækifæri til þess að tjá sína eigin skoðun á málefnum er þau varða.

Sagði hún jafnframt mikilvægt að stytta biðtímann eins og unnt er þegar barnafjölskyldur eiga í hlut. „En þakklæti þeirra er auðheyrt og vilji þeirra til að borga til baka til samfélagsins.“

Fjölmargir voru viðstaddir málþingið.
Fjölmargir voru viðstaddir málþingið. Ljósmynd/Unicef
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert