Hætta við ferðir í Reynisfjöru

Frá Reynisfjöru.
Frá Reynisfjöru.

Ferðaþjónustufyrirtækið Superjeep hefur ákveðið að taka Reynisfjöru út úr ferðum sínum um Suðurlandið meðan ekki hafa verið gerðar fullnægjandi öryggisúrbætur fyrir ferðamenn. Jakob Guðjohnsen hjá Superjeep segir á Facebook síðunni Bakland ferðaþjónustunnar að Reynisfjara verði vart skilgreind öðruvísi en hættusvæði eins og staðan er í dag.

Segir Jakob að þó aðeins séu 5 manns í hverjum bíl að jafnaði þá séu ferðamenn oft á eigin vegum og eftirlitslausir. Segir hann að starfsmenn fyrirtækisins hafi verið í fjörunni með viðskiptavini sína þegar eftirlitslaust fólk fór sér að voða og það sé ekki lífsreynsla né minningar sem þeir vilji að viðskiptavinirnir taki með sér heim. 

Vonast hann til að þessum málum verði kippt í liðinn sem fyrst, enda staðurinn fallegur og góð þjónusta og matsala á staðnum.

Jakob segir í umræðum á síðunni að hann hafi meðal annars sjálfur vaðið upp í hné til að bjarga manni sem hafi dottið og skolað út. Sá maður hafi þó ekki verið á hans vegum. Þá hafi hann séð leiðsögumenn á harðaspretti á eftir fólki sem var á leiðinni að fara sér að voða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert