„Það varð dauðaslys“

Steinninn sem maðurinn stóð á er fyrir miðju myndarinnar.
Steinninn sem maðurinn stóð á er fyrir miðju myndarinnar. Ljósmynd/Lögreglan

Fjöldi fólks stofnaði sér í voða í Reynisfjöru aðeins örfáum tímum eftir að kínverskur ferðamaður lét þar lífið á miðvikudag. Þetta segir Hjálmar Georgsson leiðsögumaður sem kom á staðinn skömmu síðar. Hann segir eiginkonu og börn mannsins hafa verið í losti.

Hjálmar hefur starfað í sex ár sem leiðsögumaður og rekur fyrirtækið Daytrips.is. Þennan dag fór hann með hóp ferðamanna á sínum vegum í ferð niður að Reynisfjöru en skömmu áður hafði út­hafs­alda sogað ferðamann með sér með þeim af­leiðing­um að hann drukknaði.

Hefur rannsókn lög­regl­unn­ar á Suður­landi síðan leitt í ljós að maður­inn stóð á um 50 sentimetra háum stuðlabergssteini, í nokk­urra metra fjar­lægð frá stuðlaberg­inu í Reyn­is­fjalli, og var þar við mynda­töku þegar aldan greip hann.

Hjálmar segir að hans hópur hafi komið að fjörunni nokkrum andartökum síðar, eða um klukkan hálf ellefu.

Að sögn Hjálmars virðast ferðamenn oft gleyma sér við myndatökur …
Að sögn Hjálmars virðast ferðamenn oft gleyma sér við myndatökur í fjörunni. mbl.is/RAX

„Selfie“ myndirnar hættulegar

„Ég nota yfirleitt afleggjarann frá þjóðvegi eitt niður að Reynisfjöru til að tala við fólkið mitt, segja því að aldan þarna sé óútreiknanleg, hún sé misstór og að þarna hafi fólk látist,“ segir Hjálmar. Hann bætir við að hann brýni jafnan einnig fyrir fólki að passa sig á svokölluðum „selfie“ tilburðum.

„Þá bakkar það bara á meðan það heldur á símanum og sér ekki nema brot af því sem er að gerast. Það eru þessar selfie myndir sem eru svo hættulegar. Ég segi þeim líka að ég geti ekki passað þau. Ég hef ekki mjög góða reynslu af því að standa yfir fólki öskrandi á það stöðugt. Almennt gengur það ekki vel að passa fólk.“

Eftir að hann hafði sagt skilið við ferðamennina að sinni segir Hjálmar að hann hafi farið inn á veitingastaðinn Svörtu fjöruna, sem reistur var á staðnum sumarið 2014.

„Ég kem þar inn og sé um leið að það er eitthvað alvarlegt á seyði, en þar er fjöldi lögreglumanna ásamt sjúkraflutningamönnum.“

Frétt mbl.is: Aldan skall á stuðlaberginu

Ferðamenn hafa margir átt fótum fjör að launa í Reynisfjöru.
Ferðamenn hafa margir átt fótum fjör að launa í Reynisfjöru. mbl.is/RAX

Áfram stofnaði fólk sér í voða

„Ég bið þar um kaffisopa og spyr afgreiðslukonuna um leið hvort slys hafi orðið. „Já,“ segir hún. „Það varð dauðaslys.“ Þá sný ég mér við og sé að það situr fjölskylda þarna við borð og menn eru að votta henni samúð sína.

Þau voru þrjú þarna við borðið. Kona og tvö börn. Annað barnanna var á unglingsaldri en hitt virtist vera um 12 ára. Þau voru alveg frosin að sjá og maður fann að það var mikið um tilfinningar þarna inni,“ segir Hjálmar.

Hann afréð þá að fara aftur niður í fjöruna.

„Þar eru björgunarsveitarmenn búnir að loka vinstri væng fjörunnar, þar sem stuðlabergið er. En þar sé ég fólk samt vera að fara sér að miklum voða, það er að fara niður í ölduna og virðist ekki skilja þá hættu sem við er varað.“

Frétt mbl.is: Með heilu þorpin á flakki

Ferðamenn eru tíðir gestir fjörunnar.
Ferðamenn eru tíðir gestir fjörunnar. mbl.is/Jónas Erlendsson

Oft séð litlu muna í fjörunni

Eftir slysið á miðvikudag ákváðu inn­an­rík­is­ráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í sam­ráði við lög­regl­una á Suður­landi, að í ljósi endurtekinna atburða verði lög­reglu­vakt við Reyn­is­fjöru.

Spurður um hvernig sé hægt að fyrirbyggja það að þetta endurtaki sig segir Hjálmar að fyrir sér sé aðeins ein raunhæf lausn í sjónmáli.

„Ég held að eina ráðið sé að hafa þarna mikla girðingu og að fólk þurfi að fara í gegnum hlið eða göng til að komast í fjöruna. Á leiðinni væru myndir og einhvers konar fræðsla um þessa atburði sem þarna hafa gerst.“

Þá kveðst hann oft hafa séð aðeins litlu muna um hvort fólk komist lífs af úr fjörunni.

„Í hvert einasta sinn sem ég hef komið þangað þá hef ég séð fólk á harðahlaupum undan öldunni og nokkrum sinnum hef ég komið að þar sem fólk er nýbúið að lenda illa í henni,“ segir Hjálmar og bendir á að aðeins viku fyrir umrætt slys hafi ekki nokkur maður verið í fjörunni þegar hann bar þar að með hóp.

Fræðslu- og viðvörunarskilti við Reynisfjöru.
Fræðslu- og viðvörunarskilti við Reynisfjöru. mbl.is/Jónas Erlendsson

Alda greip ferðamann viku áður

„Þá hafði komið þarna stór alda og tekið einn ferðamann. Hann náðist sem betur fer en það var við ramman reip að draga. Það virðist gerast í hverri viku að fólk lendir í sjónum, hvort sem það er minniháttar eða alveg í kaf.“

En af hverju er Reynisfjara svona hættuleg? Hjálmar segir hættuna felast í hraðri dýpkun fjörunnar.

„Þetta er ekki löng og breið fjara þar sem þú sérð ölduna koma langa leið á sléttu. Það er svo bratt niður í sjóinn úr sandvíkinni og þar er síðan svo djúpt að sogið verður alveg óskaplegt. Og loks, þegar brimið kemur upp að landi, þá felst í því þessi ofboðslegi kraftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert