Um 2,2 milljarðar í Víkingalottóinu

Einn allra stærsti pottur í sögu Víkingalottósins verður í boði á miðvikudag, en reiknað er með að hann verði um 2,1-2,2 milljarðar króna, að sögn Stefáns S. Konráðssonar, framkvæmdastjóra Íslenskrar getspár.

Sex tölur eru dregnar út í Víkingalottóinu á miðvikudögum. Enginn var með allar tölurnar réttar sl. miðvikudag og því gekk potturinn ekki út í þessari viku. Fyrir bragðið verður hann tvöfaldur næst, eða um 260 milljónir króna. Auk þess hafa hlaðist upp um 1.860 milljónir króna í svonefndan ofurpott. Hann hefur ekki gengið út í nokkrar vikur og hefur upphæðin í ofurpottinum því hækkað jafnt og þétt. Stefán segir að með hverri vikunni sem líður án þess að potturinn fari út aukist líkurnar á því að hann gangi út og nú hljóti hreinlega að fara að koma að því, þess vegna í næstu viku.

Margir vinningshafar

Að sögn Stefáns hafa um 1.100 Íslendingar að jafnaði fengið vinning í Víkingalottóinu í hverri viku. Fyrsti vinningur hefur 25 sinnum komið til landsins, síðast rúmar 86,3 milljónir króna í nýliðnum mánuði. Í júní í fyrra unnu íslensk hjón um 162 milljónir króna á Víkingalottómiða í áskrift og er það stærsti vinningurinn í íslenskri happdrættissögu. Víkingalottóið hófst á Íslandi 1993 og er það í samstarfi við Noreg, Svíþjóð, Finnland, Danmörku, Eistland, Lettland og Litháen . steinthor@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert