Bráðvantar nýjan skála í Bláfjöll

Færið er mjög gott í Bláfjöllum í dag.
Færið er mjög gott í Bláfjöllum í dag. Skjáskot úr vefmyndavél Bláfjalla

Um þrjú til fjögur þúsund manns eru í Bláfjöllum um þessar mundir enda hefur færið ekki verið betra á árinu samkvæmt Einari Bjarnasyni, rekstrarstjóra skíðasvæðisins. Mikil örtröð er í skíðaleigunni og brýn þörf er á nýjum skála.

Einar segir daginn hafa verið meiriháttar. „Þetta er besti dagur ársins veðurfarslega og maður er bara á þunnum bol,“ segir hann og bætir við að gestir hafi mætt jafnt og þétt á svæðið. Lyfturaðir hafi því ekki verið langar.

Allt aðra sögu sé hins vegar að segja af leiguröðinni. „Það er kominn tími til þess að byggja nýtt hús fyrir starfsemina,“ segir Einar og telur upp að öll starfsemin; salurinn, skrifstofan, leigan og sjúkraaðstaðan hafi sprengt utan af sér húsnæðið.  „Þetta er leiðinlegt og okkur vantar nýjan skála,“ segir hann.

„Húsið er byggt í kringum árið 1983 þegar lyfturnar voru um fjórar talsins. Þær eru orðnar fimmtán í dag,“ segir Einar. „Maður áttar sig á því hversu slæmt ástandið er orðið þegar maður fer erlendis og sér aðstöðuna þar.“

Opið er til klukkan 17 í Bláfjöllum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert