Sprengja lenti á heimilinu

Áður en stríðið í Sýrlandi braust út lifði Alzurqan fjölskyldan eðlilegu lífi í úthverfum Damaskus borgar. Eftir að sprengja lenti á heimili þeirra fyrir þremur árum flýðu þau landið. Nú búa þau í Hamraborg í Kópavogi þar sem þau eru að hefja nýtt líf. mbl.is heimsótti þau í vikunni.

Þau Ibrahim og Crystal komu til landsins í janúar ásamt 5 öðrum sýrlenskum fjölskyldum. Þau eiga 4 börn: Khalil er átján ára, Mohammed er fjórtán, Shifaa er 7 og Ahmed verður fimm ára á árinu nánast jafngamall ófriðnum sem hefur umturnað heimalandinu.

Þau höfðu safnað í tíu ár fyrir húsi nálægt fjölskyldu Ibrahims en hann starfaði sem túlkur. Þegar þau yfirgáfu landið var það í miklum flýti og þau eiga lítið til minningar um sitt fyrra líf. Allar myndir og megnið af persónulegum munum þeirra varð eftir í Sýrlandi.

Fyrst færðu þau sig um set og bjuggu í Daraa í suðurhluta landsins, þaðan sem þau koma upprunalega, en þar var ástandið lítið skárra. Tvö fjöldamorð voru framin í borginni skömmu eftir komuna og ástandið var ótryggt. Þaðan færðu þau sig til Líbanon en þar þurfti Khalil elsti sonurinn að hætta í skóla og vinna í byggingarvinnu til að hjálpa til við að sjá fyrir fjölskyldunni.

Atvinna er stopul í Líbanon og því greip fjölskyldan það fegins hendi að geta komið til landsins. Þau hafa haft í nógu að snúast eftir komuna og í vikunni hófu þau íslenskunám sem þau segja lykilinn að því aðlagast lífinu hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert