Gunnar Bragi spilaði fótbolta í flóttamannabúðum

Gunnar Bragi á fótboltavellinum í dag.
Gunnar Bragi á fótboltavellinum í dag. Mynd/UNRWA

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands, spilaði fótbolta við börn í flóttamannabúðum fyrir Palestínumenn í Betlehem í dag. Var um að ræða vígslu nýs fótboltavallar í flóttamannabúðunum. Er hann í heimsókn um Miðausturlöndin og hefur bæði heimsótt Ísrael og Palestínu. Á morgun er ráðgert að hann fari til Jórdaníu.

Völlurinn er hluti af verkefni Sameinuðu þjóðanna sem miðar að því að ná fram frið með þátttöku í íþróttum. Er völlurinn hluti af svokölluðum barnvænum svæðum sem reisa á meðal annars í flóttamannabúðum, en völlurinn er fyrsta slíka svæðið.

Hópurinn saman á mynd.
Hópurinn saman á mynd. Mynd/UNRWA

Auk Gunnars Braga mættu til leiks diplómatar frá fjölmörgum löndum, yfirmaður verkefnisins og fleiri. Eins og sjá má á myndunum voru Gunnar Bragi og tveir aðrir Íslendingar mættir í íslenska búningnum.

Sagði Felipe Sanchez, yfirmaður verkefnisins á Vesturbakkanum, að barnvænu svæðin væru fullkominn vettvangur fyrir börn sem byggju við erfiðar aðstæður að leika sér og kynnast nýjum vinum. Í búðunum byggju þau við ítrekað ofbeldi, táragas og fleira sem gerði líf þeirra erfitt.

Mynd/UNRWA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka