Kærður fyrir fjárdrátt og misneytingu

Bergvin Oddsson var kjörinn formaður Blindrafélagsins á aðalfundi í maí …
Bergvin Oddsson var kjörinn formaður Blindrafélagsins á aðalfundi í maí árið 2014. mbl.is/Kristinn

Bergvin Oddsson, formaður Blindrafélagsins, hefur verið kærður til lögreglu fyrir auðgunarbrot og misneytingu gegn ungum félagsmanni í Blindrafélaginu. Bergvin segist gruna að kæran snúist um að klekkja á honum og knésetja hann fyrir formannskosningar í mars.

Í kærunni, sem mbl.is hefur undir höndum og er dagsett 10. febrúar, er Bergvin sagður hafa sannfært félagsmanninn, sem er fæddur árið 1994, um að greiða inn á bankareikning sinn samanlagt rúmar 1,6 milljónir króna. Áttu fjármunirnir að vera notaðir, ýmist sem stofnfé eða hlutafjárhækkun, til að standa undir 20% hlut félagsmannsins í einkahlutafélaginu Hnjúki.

„Viðkvæmt tímabil í lífi félagsmannsins“

Segir í kærunni að ljóst sé að frá stofnun félagsins hafi hinn ungi félagsmaður verið sá eini af hluthöfunum sem lagði félaginu til einhverja fjármuni að ráði. Þá hafi Bergvin beðið hann um að greiða inn á sinn persónulega reikning en þeir peningar hafi svo ekki skilað sér inn á bankareikning félagsins.

Háttsemi Bergvins er í kærunni talin varða við ákvæði 247. og 248. grein almennra hegningarlaga, þar sem Bergvin hafi notfært sér villu félagsmannsins í auðgunarásetningi og haldið eftir fé í eigu annars aðila, þ.e.a.s. greiðslunum sem ætlaðar voru félaginu Hnjúki.

Hinn ungi maður hafði nýlega gengið til liðs við Blindrafélagið þegar Bergvin er sagður hafa lagt til að þeir myndu hefja fyrirtækjarekstur saman í ársbyrjun 2015. Þá hafi atvik málsins átt sér stað á mjög viðkvæmu tímabili í hans lífi þar sem hann hafði þá misst stærsta hluta sjónar sinnar á stuttum tíma. Auk þessa er til talið að hann hafi verið ungur og óreyndur og lagt mikið traust til Bergvins vegna stöðu hans sem formanns.

Brot hans er því sagt einnig varða við ákvæði 253. greinar almennra hegningarlaga, þar sem Bergvin hafi misnotað þann aðstöðumun sem var á milli aðilanna og aflað sér með þeim hætti umtalsverðra fjármuna frá félagsmanninum, án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir.

Bergvin var kærður til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Kæran er dagsett …
Bergvin var kærður til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Kæran er dagsett 10. febrúar.

Beið niðurstöðu sannleiksnefndarinnar

Hin meintu brot áttu sér stað á síðasta ári og í septembermánuði samþykkti stjórn Blindra­félags­ins van­trausts­yf­ir­lýs­ingu á hend­ur Berg­vini, vegna „al­var­legs trúnaðarbrests“ sem var sagður hafa komið upp á milli for­manns­ins og stjórn­ar­inn­ar.

Sagði stjórn­in þá máls­at­vik vera með þeim hætti að Bergvin „hafi nýtt sér vett­vang fé­lags­ins til að véla ung­an fé­lags­mann til að leggja allt sitt spari­fé í fast­eigna­brask hon­um tengt.“

Heimildir mbl.is herma að félagsmaðurinn hafi viljað bíða niðurstöðu hinnar svokölluðu sannleiksnefndar, sem skipuð var af stjórn félagsins í kjölfar vantraustsyfirlýsingarinnar, þar til hann tæki ákvörðun um hvort kæra skyldi Bergvin.

Nefndin skilaði skýrslu sinni þann 9. febrúar síðastliðinn þar sem fram kom að hún teldi Bergvin hafa sýnt í þessu efni dómgreind­ar­leysi. Þá hafi það verið rangt hjá hon­um að hvetja félagsmanninn til að fjár­festa í fé­lagi með sér og föður sín­um. Eftir útgáfu skýrslunnar ákvað félagsmaðurinn um leið að kæra.

Frétt mbl.is: Hafi farið offari gagnvart Bergvini

Félagið Hnjúkur keypti blokkaríbúð í Vestmannaeyjum.
Félagið Hnjúkur keypti blokkaríbúð í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Keypti félagsmanninn út úr Hnjúki

mbl.is hefur tryggar heimildir fyrir því að félagsmaðurinn hafi fengið allt það fé endurgreitt sem hann hafði lagt til Bergvins og félagsins. Honum líði þó enn líkt og hann hafi verið blekktur og svikinn. Því kæri hann nú hin meintu brot til að fá lyktir í málið.

Í samtali við mbl.is segist Bergvin hafa keypt félagsmanninn út úr félaginu Hnjúki, með 3,5% vöxtum af því fjármagni sem hann hafði lagt í félagið. Tilgangur félagsins hafi verið að kaupa og selja fasteignir og leigja þær út, en félagið hafi til dæmis keypt blokkaríbúð í Vestmannaeyjum. Spurður hvaða ástæðu hann telji vera fyrir kærunni á hendur sér segir hann:

„Ég veit það ekki. Mig grunar að þetta snúist fyrst og fremst um að reyna að klekkja á mér og knésetja mig fyrir formannskosningar Blindrafélagsins þann 19. mars næstkomandi. Með þessu sé verið að drepa málum á dreif með því að varpa kastljósinu yfir á mig, í stað þess að það sé á stjórn Blindrafélagsins eftir niðurstöðu sannleiksnefndarinnar, sem er að mínu mati mjög afgerandi.“

Spurður enn fremur hvort hann telji stjórnina vera á bak við kæruna segist Bergvin ekki geta fullyrt neitt um það. „En það kæmi mér ekki á óvart.“

Frétt mbl.is: Vantraust á formann Blindrafélagsins

Félagsmaðurinn fékk fé sitt endurgreitt með 3,5% vöxtum að sögn …
Félagsmaðurinn fékk fé sitt endurgreitt með 3,5% vöxtum að sögn Bergvins. mbl.is/Kristinn

Tvær fylkingar innan Blindrafélagsins

Um þessar mundir segist Bergvin vera að undirbúa formannsframboð sitt fyrir aðalfund félagsins í mars. Hann segir meðlimi Blindrafélagsins skipast í tvær fylkingar.

„Það er fólk sem ætlar alls ekki að kjósa mig og svo finn ég fyrir miklum stuðningi hjá öðrum félagsmönnum. Ég býð mig fram og svo verðum við að setja það í dóm félagsmanna hvort að ég njóti trausts innan félagsins til að gegna starfi formanns áfram. Ég er ekkert hræddur um að tapa þessum kosningum, ég lifði innihaldsríku lífi áður en ég var kjörinn formaður félagsins og mun halda því áfram.“

Að lokum segir Bergvin að lögfræðingur sinn sé búinn að senda stjórn Blindrafélagsins bréf, þar sem farið sé fram á opinbera afsökunarbeiðni. Að öðrum kosti muni hann höfða meiðyrðamál á hendur stjórninni.

Frétt mbl.is: Bergvin býður sig fram á ný

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka