Vilja Menningarsetrið úr Ýmishúsinu

Ýmishúsið er í eigu Stofnunar múslima en hýsir Menningarsetur múslima …
Ýmishúsið er í eigu Stofnunar múslima en hýsir Menningarsetur múslima sem stendur. mbl.is/Árni Sæberg.

Stofnun múslima á Íslandi krefst þess að Menningarsetur múslima verði borið út úr Ýmishúsinu í Skógarhlíð.

Dómsmál þess efnis verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Stofnun múslima heldur því fram að vera Menningarsetursins í húsnæðinu byggi á samningi sem hafði aldrei gildi sem leigusamningur og var þinglýst í óþökk húseiganda.

Stofnun múslima keypti Ýmishúsið árið 2010. Samkvæmt leigusamningi sem mbl.is hefur undir höndum var upphaf leigutíma 1. janúar 2013. Samningnum var þó ekki þinglýst fyrr en tveimur árum síðar þann 22. janúar 2015 en hann gildir til ársins 2023.

Samkvæmt þeim samningi greiðir Menningarsetrið 10 þúsund króna leigu, vatn, hita, rafmagn og fasteignagjöld sem og sér­stök til­lög vegna sam­eig­in­legs viðhalds eða end­ur­bóta á hús­eign eða lóð.

Annað dómsmál Stofnunar múslima á Íslandi gegn Menningarsetri múslima er nú þegar í ferli fyrir Héraðsdómi. Það mál snýr að skilti sem Menningarsetrið hefur komið upp á Ýmishúsinu sem gefur til kynna að í húsinu sé moska. Stofn­un múslima óskaði eft­ir því að skiltið yrði fjar­lægt en  Menn­ing­ar­set­ur múslima varð ekki við þeirri ósk. Þá var verktaki send­ur á staðinn til að fjar­lægja skiltið en var „hrak­inn í burtu“. 

Langvarandi deilur

 Það hefur lengi andað köldu milli Stofnunar Múslima og Menningarsetursins. Meðlimir Menningarsetursins hafa sakað leigusala sína um óeðlilega pressu og um að hlutast til í starfi þeirra. Í janúar stóð Menningarsetrið fyrir mótmælum utan við fund Stofnunar múslima á Grand Hótel og fóru mótmælendur fram á að fá að vita hvað orðið hefði um það fjármagn sem Stofnunin fékk í styrk frá sendiherra Sádí Arabíu.

Frétt mbl.is: Múslimar mótmæltu í Reykjavík

Gísli Kr. Björnsson, lögmaður Stofnunar múslima, vísar þeim kröfum á bug og segir forsvarsmenn Menningarsetursins reka hatursumræðu gegn stofnuninni á Facebook og einnig í sænskum og arabískum fjölmiðlum.

„Stofnunin hefur notað þetta fjármagn í fullu samræmi við styrkbeiðnina og að öðru leiti kemur það Menningarsetrinu ekki við,“ segir Gísli. „Það hefur hagsmuni af því að vera þarna ókeypis og telur sig eiga rétt á því en svo er að sjálfsögðu ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert