Átök milli vors og vetrar

Það er spáð roki og rigningu um helgina og óspennandi …
Það er spáð roki og rigningu um helgina og óspennandi útivistarveðri víða. Klakinn gefur hins vegar eftir ef spáin gengur eftir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það var mjög hvasst á sunnan- og vestanverðu landinu í nótt og stormur víða. Undir Hafnarfjalli hefur farið í 45 metra á sekúndu í hviðum og mjög hvasst á Snæfellsnesi.  Rokið er að færast austur og norður en segja má að um átök milli vors og vetrar sé að ræða og verður svo næstu daga.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það sé farið að lægja á Suður- og Vesturlandi og suðaustanáttin að færast norður og austur og verður hvasst þar í dag. Það snýst aftur á móti í suðvestan og kólnandi veðri er spáð á sunnan- og vestanverðu landinu.

Það er margt sem minnir á vorið þessi dægrin, fuglasöngur …
Það er margt sem minnir á vorið þessi dægrin, fuglasöngur og átök í veðrinu þar sem hlýtt og kalt loft tekst á í háloftunum. mbl.is/Styrmir Kári

Elín segir að það fari að kólna um og eftir hádegi og búast megi við frosti í kvöldi. Það verður fremur hvasst áfram í dag.

Það er fyrir ofan frostmark á flestum stöðum á láglendi og því ekki snjókoma í dag. Það lægir síðan og dregur heldur úr éljum síðdegis á morgun en snýst í suðaustan 8-15 m/s með slyddu og síðan rigningu sunnan til annað kvöld.

Ömurlegt veður um helgina

Á morgun verður suðvestanátt megnið af deginum en annað kvöld fer að hvessa á nýjan leik með suðaustanátt. Elín segir að laugardagur og sunnudagur verði dálítið skrautlegir veðurfarslega og það verði mjög hvasst á laugardaginn. Það stefni jafnvel í storm eða ofsaveður þann dag, meðal annars á Suðvesturlandi og víðar. Um leið hlýnar mjög mikið og gæti farið í allt að tíu stiga hita með tilheyrandi hláku. 

„Það er eiginlega vor í lofti,“ segir Elín og vísar til átaka milli hlýja og kalda loftsins. Þegar þessi átök eiga sér stað verður lægðagangurinn mikill líkt og er þessa dagana. 

„Nú ganga yfir landið fyrstu skilin af nokkrum í þriggja lægða syrpu sem stendur fram yfir helgi. Þar ganga hvassar suðaustan- og suðvestanáttir á víxl með talsverðum hitabreytingum og úrkomu. Það rignir með suðaustanáttinni á meðan éljagangur fylgir suðvestan hvassviðrinu. Hlýindin hafa þó betur á laugardag og sunnudag með asahláku um allt land.

Um veðurspá dagsins má segja að með morgninum snýst smám saman í suðvestan hvassviðri um landið sunnan og vestanvert, og kólnar aftur með skúrum og slydduéljum en austan- og norðanlands herðir á suðaustanáttinni. Þar snýr vindur sér til suðvesturs í kvöld. Í kvöld og nótt frystir víða við yfirborð og á morgun er útlit fyrir áframhaldandi éljagang en bjartviðri norðaustanlands,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands í morgun.

Eitt af vorboðunum er brum á trjám
Eitt af vorboðunum er brum á trjám mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Að sögn Elínar er hlákan núna ekki langvinn eða mesta lagi tíu klukkutímar en síðan frystir aftur, eða kólnar. Á laugardag er hins vegar útlit fyrir að klakinn eigi eftir að hopa víða í hvassri og um leið hlýrri sunnanátt.

Veðurspá fyrir næstu daga:

Á föstudag:

Suðvestan 15-23 m/s og éljagangur, hvassast á Vestfjörðum en úrkomulítið NA-til. Snýst í suðlægari átt og lægir heldur um kvöldið. Hiti um og undir frostmarki.

Á laugardag:
Suðaustan hvassviðri og rigning, talsverð sunnanlands en hægari austlæg átt og úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast austanlands. Snýst í suðvestan hvassviðri eða storm með éljum undir kvöld og kólnar.

Á sunnudag:
Sunnan hvassviðri eða stormur með talsverðri rigningu og hlýindum, en áfram þurrt að kalla norðaustan til. Hiti 4 til 10 stig.

Á mánudag:
Sunnan hvassviðri og rigning sunnan- og suðaustanlands en snýst í suðvestanátt með skúrum eða éljum síðdegis, einkum V-til og heldur kólnandi veðri í bili.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir áframhaldandi fremur milda suðlæga átt og rigningu og súld vestantil en bjartviðri austanlands.

Það er margt sem minnir á vorið þessi dægrin, fuglasöngur …
Það er margt sem minnir á vorið þessi dægrin, fuglasöngur og átök í veðrinu þar sem hlýtt og kalt loft tekst á í háloftunum. mbl.is/Styrmir Kári
Það er spáð roki og rigningu um helgina og óspennandi …
Það er spáð roki og rigningu um helgina og óspennandi útivistarveðri víða. Klakinn gefur hins vegar eftir ef spáin gengur eftir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Eitt af vorboðunum er brum á trjám
Eitt af vorboðunum er brum á trjám mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert