Á rétt á því að verja sig sjálfur

Hæstiréttur segir að við meðferð málsins í héraði hafi ekki …
Hæstiréttur segir að við meðferð málsins í héraði hafi ekki verið virtur lögbundinn réttur mannsins til að verja sig sjálfur og er ekki hægt að útiloka að það kunni að hafa skipt einhverju um úrslit málsins. mbl.is/RAX

Hæstiréttur hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjaness í máli manns sem var dæmdur í 75 daga fangelsi fyrir umferðar- og vopnalagabrot. Hæstiréttur segir að lögbundinn réttur mannsins til að fá að verja sig sjálfur hefði ekki verið virtur og málinu því vísað heim í hérð til nýrrar meðferðar.

Maðurinn var ákærður í maí 2014 fyrir umferðar-, vopna- og lögreglulagabrot í Hafnarfirði. Hann var sakaður um að aka bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis og ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu heldur aukið hraðann. Hann ók inn á bifreiðastæði þar sem hann stöðvaði aksturinn og reyndi að komast undan lögreglu á hlaupum en var handtekinn af lögreglu á bifreiðaplaninu, og haft í vörslum sínum fjaðrahníf sem fannst við öryggisleit og lagt var hald á.

Héraðsdómur dæmdi manninn í 75 daga fangelsi í október 2014. 

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að héraðsdómarinn hafi skipað manninum verjanda þrátt fyrir að bókað hafði verið við þingfestingu málsins að maðurinn óskaði ekki eftir verjanda að svo stöddu.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu skyldi sakborningur fá að halda uppi vörnum sjálfur og væri sá réttur liður í réttlátri málsmeðferð sem væri varin af 1. mgr. sömu greinar og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Um rétt þennan væri nánar kveðið á um í 29. gr. laga nr. 88/2008 en í 3. mgr. 31. gr. sömu laga væri kveðið á um heimild dómara til að skipa sakborningi verjanda þótt hann hefði ekki óskað þess ef hann væri að mati dómara ekki fær um að gæta hagsmuna sinna sem skyldi við meðferð máls fyrir dómi.

Ákvörðun héraðsdóms um að skipa manninum verjanda hefði hins vegar ekki verið reist á því að hann væri ófær um að gæta hagsmuna sinna sjálfur, enda hefði ekkert komið fram í málinu sem benti til þess að hann hefði ekki verið til þess hæfur.

Í því tilliti breytti engu þótt maðurinn talaði ekki íslensku enda hefði verið fullnægjandi að bregðast við því með því að fá túlk til að þýða það sem fram fór fyrir dómi.

Var því ekki virtur lögbundinn réttur mannsins til að verja sig sjálfur við meðferð málsins en ekki var hægt að útiloka að það kynni að hafa skipt einhverju um úrslit þess.

Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert