Vill að Vilhjálmur njóti friðhelgi

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tekist var á um eignir í skattaskjólum í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var spurður að því hvort það kæmi sér ekki illa fyrir flokkinn að komið hefði í ljós að gjaldkeri hans hefði átt eignir í skattaskjólum erlendis en Árni sagði svo alls ekki vera enda hefði Vilhjálmur Þorsteinsson sýnt gott fordæmi með því að segja af sér.

Þáttarstjórnandi sagði þá að Vilhjálmur hefði aðeins sagt af sér eftir að honum hefði verið stillt upp við vegg í málinu. Árni svaraði því að honum þætti að virða ætti það við fólk þegar það axlaði ábyrgð með þessum hætti og það væri þekkt regla erlendis að þegar fólk hefði stigið til hliðar nyti það friðhelgi vegna umræðunnar eftirleiðis.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist telja þessa yfirlýsingu Árna Páls merkilegar fréttir fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur samflokksmann sinn en hún sagði af sér embætti innanríkisráðherra vegna lekamálsins svokallaðs haustið 2014. 

Guðlaugur sagði lykilatriði varðandi skattaskjólamálið að greiddir hefðu verið fullir skattar hér á landi af eign eiginkonu forsætisráðherra á Bresku jómfrúareyjum. Það hefði líka átt við um félag sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði fyrir mörgum árum keypt sig inn í. Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði að gjaldkeri Samfylkingarinnar hefði hins vegar greitt skatta erlendis.

Rétt að skrá skuldir þingmanna líka

Guðlaugur sagðist annars aðspurður ekki telja rangt að fjárfesta erlendis þó hann væri alfarið á móti skattaskjólum sem hefðu það að markmiði að skjóta fjármunum undan skatti. Það væri þvert á móti æskilegt og snerist einfaldlega um eðlilega áhættudreifingu. Þannig væri ekki skynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni. Ekki síst þegar kæmi að sparnaði.

Sjálfur sagðist hann þó ekki eiga nein slík félög erlendis frekar en eiginkona hans. Talandi um eignir maka væri sjónarmið að hafa þær með í hagsmunaskráningu þingmanna. En þá væri einnig spurning að skrá skuldir þingmanna og maka þeirra líka. Fólk væri í raun mun háðara lánadrottnum sínum þegar kæmi að skuldum þess frekar en eignum.

Árni Páll sagði þetta athyglisverð ummæli enda hefðu sjálfstæðismenn ekki talað á þennan veg þegar umræða hafi farið fram á síðasta ári um skuldamál Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Guðlaugur Þór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert