Sjálfstæðisflokkurinn ekki búinn að samþykkja Sigurð Inga

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki samþykkt að Sigurður Ingi Jóhannsson taki við embætti forsætisráðherra. Þetta kemur fram í Twitter-skilaboðum sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, sendi frá sér í kvöld.

„Ég vildi bara ítreka það vegna þess miskilnings sem virtist gæta hjá mörgum, að það sé orðið ljóst að hann muni leiða ríkisstjórnina. Hann tekur tímabundið við þegar Sigmundur víkur af þingflokksfundi Framsóknarmanna, en það hafa engar formlegar samningaviðræður farið fram á milli flokkanna,“ segir Áslaug Arna um Twitter-skilaboðin. „Ég vildi bara ítreka að það hefur ekki verið samþykkt af okkar hálfu.“

Áslaug Arna hafði áður sent frá sér Twitter-skilaboð um að hún voni að rétt sé að Sigmundur Davíð sé hættur, ekki aðeins tímabundið. 

„Það eru misvísandi skilaboð sem hafa borist í kvöld varðandi brotthvarf Sigmundar og ég vona bara að hann hafi sagt af sér og ætli að segja af sér formlega við forsetann í kjölfarið, en sé ekki í smá orlofi eins og kom fram hjá upplýsingafulltrúa,“ segir Áslaug Arna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert