„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að stíga til hliðar og leggja til að Sigurður Ingi Jóhannsson tæki við [sem forsætisráðherra] er að ég taldi mjög mikilvægt að skapa starfsfrið fyrir ríkisstjórnina svo hún gæti fylgt eftir stórum og mikilvægum málum sem eru langt komin og mikilvægt er að takist að ljúka. Þetta eru mál sem varða verðtryggingu, endurskipulagningu fjármálakerfisins, afnám hafta og húsnæðismál.“
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, seint í gærkvöldi þegar breytingar á ríkisstjórninni lágu fyrir. „Ég lagði áherslu á að við myndum beita okkur afdráttarlaust hvað þessi mál varðaði og vona að nýrri ríkisstjórn takist að áorka sem mestu í því. Það á að vera hægt miðað við þá undirbúningsvinnu sem hefur verið unnin.“
Spurður hvort raunhæft sé að ríkisstjórnin nái til dæmis að ljúka verkefnum í húsnæðismálum áður áður en þetta þing rennur sitt skeið, segir Sigmundur Davíð „allt hægt ef viljinn er fyrir hendi“.