Þarf að liggja fyrir hvenær á að kjósa

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Þetta er auðvitað algerlega óásættanlegt. Ekki bara fyrir okkur í þinginu heldur bara fólkið í landinu. Það þarf að liggja fyrir hvenær á að kjósa svo hægt sé að undirbúa það. Mér finnst þetta liggja ljóst fyrir. Það þarf að koma dagsetning og síðan förum við í það að ræða það hvað við gerum innan þess tímaramma,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.

„Það er talað hér um afnám hafta. Ekki förum við að þvælast fyrir því. Við viljum vera með í því. Og heilbrigðismál og húsnæðismál. Þetta eru velferðarmál sem allavega Samfylkingin vill vinna að. Þannig að ég átta mig ekki alveg á því hvert þau eru að fara eða hvaða sérstöku mál það eru sem þau telja sig þurfa svona sveigjanlegan tíma til vinna að. Mér finnst einfaldlega að þetta verði bara að vera á hreinu,“ segir Oddný. 

„Fólk þarf að hugsa sig um ef það er að velta fyrir sér framboði, leggja fram nýja lista eða slíkt. Eftir þessa síðustu viku, þar sem við höfum eiginlega verið sett undir valtara má segja, þá er engin þörf á frekari óvissu. Það getur ekki verið stjórnarflokkunum til framdráttar heldur. Ég skil ekki þessa taktík,“ segir Oddný ennfremur.

Spurð um hvaða áhrif kosningar í haust kunna að hafa á fjárlagagerð vegna næsta árs segir hún að fjárlagavinna sé yfirleitt búin í júní. Þá sé búið að loka öllum stóru talnabálkunum og síðan taki við að skrifa textann í ágúst. 

„Síðan gerum við bara breytingar á milli umræðna,“ segir Oddný. Því fyrr sem kosningar fari fram því betra. September sé ekki vandamál né fyrsta vikan í október. Hins vegar sé of seint að kosningarnar fari fram í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert